149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að gott er hafa langþráða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og gott að vinna eftir henni. Það eru einmitt áherslur ríkisstjórnarinnar að halda áfram að spýta í lófana. Það er rétt að samgöngumálin eru mjög stór í því samhengi, sérstaklega er varðar Parísarsamkomulagið, en kannski ekki í því heildarsamhengi hvar mengun á sér stað.

En við getum gert eitthvað í samgöngumálum. Þar eru tveir þættir mikilvægir. Annars vegar eru það almenningssamgöngur og þess vegna höfum við unnið að því að koma á heilsteyptu almenningssamgöngukerfi um allt land sem er núna haldið áfram með smíðina á eftir skýrslu og undirbúning. Síðan er það að breyta viljayfirlýsingu í samskiptum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu yfir í samninga um það hvernig við sjáum fyrir okkur þá uppbyggingu alla. Ég er mjög bjartsýnn á að hægt sé að ná því bæði að sjá fyrir sér hvaða framkvæmdir við erum að fara í á næstu 15 árum og á hvaða hraða og hafa fjármagn til þess. Eins og hefur margoft komið fram í máli mínu var það upphaflega að beiðni borgaryfirvalda, eðli máls samkvæmt, að taka upp gjaldtöku til að stýra umferð. Það er forsenda fyrir því að fá fólk til að nýta almenningssamgöngur meira, þá yrði sú leið farin.

Hinn þátturinn sem við getum farið í í samgöngumálunum og er ekki síður mikilvægur er orkuskiptin. Við eigum einstaka möguleika til þess með alla okkar endurnýjanlegu orku. Við eyðum 25–30 milljörðum af gjaldeyristekjum í að kaupa olíu af Norðmönnum eða Sádi-Arabíu, sem hafa ekkert með þá peninga að gera. Við gætum frekar notað þá í eigin auðlindir, úr rafmagni eða vetni eða metani eða einhverju slíku, og náð meiri hraða í orkuskiptum á bílana sem er gríðarlegur ávinningur fyrir bílaeigendur, (Forseti hringir.) bæði efnahagslegur en ekki síður vegna þess að loftslagsmálin verða þá (Forseti hringir.) mun betri á höfuðborgarsvæðinu en þau eru í dag.