149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:35]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Herra forseti. Ég las af miklum áhuga kaflann sem snýr að fiskeldismálum í þessu frumvarpi vegna þess að ég tel þetta vera bæði afar stórt og mikilsvert málefni á margan hátt. Sem Vestfirðingur í allar ættir hefur maður fylgst af miklum áhuga með þeirri bjartsýni sem maður sér fyrir vestan fyrir þessari nýju atvinnugrein, uppbyggingu og atvinnusköpun sem hún gæti leitt af sér.

Í hina röndina hefur maður verið að horfa á og fylgjast með miklum áhyggjum umhverfisverndarfólks af því sem af þessu gæti hlotist, bæði mengun í fjörðunum, eyðileggingu hugsanlega fiskimiða og hins íslenska laxastofns. Ég skoðaði því hvernig væri reynt að meta áhrifin af því á bæði tekjuhlið og útgjaldahlið í fjármálaáætluninni.

Nú eru plön um að auka laxeldi í sjókvíum upp í u.þ.b. 70.000 tonn á ári sem er eins og 1/3 af því sem við veiðum af þorski árlega, svoleiðis að þetta er risavaxið mál. Hins vegar finn ég ekkert um það í fjármálaáætlun á hvorn veginn sem er. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar eru áætlanir um að bregðast við þessu bæði út frá tekjum og kostnaði?