149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn. Ég vil nefna, af því að við áttum áðan í orðaskiptum um einstakrar stéttir í heilsugæslunni og erum líka að tala um heimahjúkrun og heimaþjónustu, að auðvitað er mikilvægt að sjúkraþjálfarar séu partur af öflugri framlínu heilsugæslunnar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þjóðarsjóð. Það er rétt ábending að samkvæmt frumvarpi því sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd er að fjalla um núna er gert ráð fyrir að þjóðarsjóður sé sjóður til ákveðinna efnahagslega nota, ef svo má að orði komast. En í bráðabirgðaákvæði er fjallað um tvennt sem við gætum alveg talað um sem ákveðna kynslóðareikninga, þ.e. annars vegar það að byggja upp hjúkrunarrými fyrir eldri kynslóðina og hins vegar að setja fjármagn í nýsköpun til framtíðar.

Um þetta er sérstaklega fjallað í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og raunar í stjórnarsáttmálanum. Þetta er því nefnt þar en er algerlega afmarkað, skilgreint og einskiptis, ef svo má að orði komast.

Hv. þingmaður nefnir 130 rými til viðbótar og það er rétt. Það kemur fram, 133 rými til viðbótar, og þá erum við að tala um að ferillinn sé þannig teiknaðar upp núna að það séu 500 nýjar milljónir á næsta ári til uppbyggingar og svo hækkandi upp í 2 milljarða og alls eru það 6 milljarðar sem koma úr þeim nýja farvegi.

Hv. þingmaður spyr líka um rekstur hjúkrunarrýmanna. Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni um að ekki sé búið að ganga frá samningum.. Það er annað en hitt er það, eins og glöggir lesendur fjármálaáætlunar sjá, að ekki er gert ráð fyrir fullfjármögnuðum rekstri hjúkrunarrýma, þ.e. þeim viðbótum, þegar kemur að árinu 2023 í áætluninni.

Ég held að það sé einboðið (Forseti hringir.) að hv. fjárlaganefnd þurfi a.m.k. að nefna það í nefndaráliti.