149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:04]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ferðamönnum hefur fjölgað mjög hér á landi síðustu ár. Árið 2018 komu um 2,3 milljónir erlendra ferðamanna til landsins um Keflavíkurflugvöll, sem er 5,5% aukning frá árinu áður. Því hefur fjölgun ferðamanna minnkað frá árunum á undan, en árleg fjölgun ferðamanna á tímabilinu 2010–2017 var um 24% á milli ára. Sjá má í farþegaspá Isavia fyrir nánustu framtíð að aukning ferðamanna dregst heldur saman. Þegar talað er um minni aukningu getur maður gefið sér að farþegafjöldi haldi áfram að aukast og verði yfir 2,5 milljónir manna á ári á næstunni.

Þó að hægt hafi á vexti ferðaþjónustunnar erum við samt sem áður að tala um einhverja aukningu sem að mínu áliti er gleðilegt og þurfum við sem við stjórnvölinn erum að hafa tögl og hagldir á ferðamannaþjónustunni í góðri samvinnu við þjónustuaðila vítt og breitt um landið. Dreifing á ferðamönnum um landið er misjöfn og álagið á landsvæðum mismikið. Eins eru skilyrði til móttöku ferðamanna æðimisjöfn eftir landshlutum.

Mig langar til að vitna í kaflann um framtíðarsýn og meginmarkmið, með leyfi forseta:

„Unnið er að því að móta framtíðarsýn málefnasviðsins til lengri tíma litið en ljóst er að hún mun fela í sér tilvísun til sjálfbærrar ferðaþjónustu á grunni efnahagslegs, umhverfislegs og samfélagslegs jafnvægis. Náttúra Íslands er ein helsta forsenda fyrir viðgangi ferðaþjónustu í landinu og því þarf að huga að áhrifum af starfsemi greinarinnar á umhverfið, svo sem með tilliti til þolmarka náttúru.“

Mig langar til að spyrja ráðherrann í framhaldi af þessu: Sér ráðherrann fyrir sér að þjónustan til móttöku á ferðamannastöðum á landsbyggðinni verði bætt í nánustu framtíð til mótvægis við álagið á suðvesturhorninu þar sem móttökusvæðin eru farin að láta á sjá, svo að ekki sé meira sagt?