149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er ánægð með að hæstv. ráðherra hefur skilning á þessu máli og að vinna sé í gangi til að skoða leiðir til að jafna að fullu þennan mikla mismun, sem er vissulega til staðar og er baggi á mörgum landsmönnum á þeim svæðum sem er ekki séð fyrir að þetta breytist á næstu árum, að það finnist heitt vatn eða eitthvað því um líkt.

Þegar við fórum út í að jafna dreifiveiturnar innbyrðis voru stórnotendur ekki teknir inn í þá jöfnu. Það var eingöngu milli dreifiveitna sem var sett á ákveðið gjald til að jafna þennan kostnað.

Ég spyr: Væri ekki eðlilegt að stórnotendur mundu taka þátt í þessari jöfnun líka? Það þyrfti kannski ekki marga aura á hverja kílóvattstund til þess að hægt væri að jafna þennan mun varðandi dreifinguna á raforkunni.