149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það gefst auðvitað ekki mjög langur tími til að fara ítarlega yfir þennan málaflokk í fimm mínútna framsöguræðu enda geng ég eiginlega út frá því að þeir þingmenn sem munu taka síðar til máls hafi kannski meiri áhuga á því að eiga orðaskipti og beina spurningum til þess sem hér stendur. Þess vegna ætla ég bara að fara gróflega yfir stærstu málaflokkana og svo tökum við umræðuna í framhaldinu.

Fyrst um málefnasvið 27, örorku og málefni fatlaðs fólks, í fjármálaáætlun. Þar er gert ráð fyrir að verði varið 510 milljónum á árinu 2020 vegna búsetuskerðingar, sem hefur verið talsvert til umræðu undanfarið, og jafnframt komi inn á árinu 2020 1,1 milljarður vegna fyrirhugaðra breytinga á bótakerfum almannatrygginga og sú upphæð fari þar með í 4 milljarða.

Varðandi málefni fatlaðs fólks er enn þá inni úr fyrri fjármálaáætlun að gert sé ráð fyrir 70 millj. kr. árlega vegna NPA-samninga. Í málaflokki aldraðra er gert ráð fyrir 100 milljónum, nýrri fjárveitingu, á árinu 2020 til að bæta kjör aldraðra sem eiga lítil réttindi. Er það m.a. gert í samræmi við niðurstöður starfshóps sem skipaður var að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Nú er unnið að frumvarpi sem síðar mun auðvitað þurfa að fara í endanlegt kostnaðarmat þannig að það liggi nákvæmlega fyrir hvaða upphæð þurfi, en það er í vinnslu.

Varðandi fjölskyldumál, málefnasvið 29, er fyrst og fremst um breytingar að ræða sem snúa að fæðingarorlofi. Bæði er þar inni fjármagn til að ljúka við þá hækkun sem boðuð var 1. janúar 2019 og fjármagn til að lengja fæðingarorlof þar sem gert er ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs um einn mánuð á árinu 2020 og tvo mánuði á árinu 2021. Í það fara umtalsvert háar fjárhæðir. Einnig er áfram inni 200 millj. kr. fjárframlag til þess að styrkja málaflokk barna. Framlög til móttöku flóttamanna eru aukin um 180 milljónir og verða því árlega um 700 milljónir á tímabilinu.

Útgjaldabreyting á því málefnasviði er varðar vinnumarkaðsmál skýrist helst af auknu framlagi til starfsendurhæfingarsjóðs og VIRK. Árið 2020 bætast við 217 milljónir. Það er rétt að geta þess að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta eru ekki talin með þar sem þau eru ekki hluti af rammasettum útgjöldum ríkisins.

Síðan er gert ráð fyrir því varðandi húsnæðisstuðning að fallið sé frá niðurfellingu stofnframlaga frá fyrri fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2022. Fjárveitingin árið 2019 er því í raun óbreytt milli ára.

Á málefnasviðum 27, 28 og 29 er gert ráð fyrir vexti sem tekur mið af lýðfræðilegri þróun og innbyggðum kerfislægum vexti. Forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir 3% fjölgun ellilífeyrisþega og 2,5% fjölgun örorkulífeyrisþega sem tekur mið af þróun undanfarinna ára. Það er áætlað að útgjöld vegna áhrifa af kerfislægum vexti nemi því 3,9–4,4 milljörðum árlega, eða 21 milljarði samtals fram til ársins 2024.

Það er auðvitað svo með fjármálaáætlanir að það eru mörg verkefni í vinnslu og í fjármálaáætlun eru atriði sem vissulega eru gagnrýniverð eins og gengur og gerist og ég þykist vita að þingmenn muni koma inn á það í umræðunni á eftir. En það eru samt mjög veigamiklar aðgerðir í áætluninni eins og t.d. lenging fæðingarorlofsins. Þar með er ríkisstjórnin búin að hækka bæði greiðslur í fæðingarorlofi og tryggja fjármögnun á lengingu fæðingarorlofs, sem gagnrýnt var mjög í umræðu um fjármálaáætlun á síðasta ári að væri ekki inni.

Síðan eru atriði er varða húsnæðismál, sem enn eru í umræðunni, til að mynda um fyrstu kaup, það fjármagn sem mun þurfa þar inn. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessari fjármálaáætlun eins og hún er uppsett með hvaða hætti það verður. Það stafar m.a. af því að starfshópur er að störfum sem er að útfæra það frekar og við eigum von á því að sjá niðurstöður úr því fljótlega. Eins kann að vera að einhver ákveðin atriði sem snúa að þeim þáttum sem eru í samtali á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins kunni að (Forseti hringir.) taki einhverjum breytingum í fjármálaáætlun. En þó, eins og ég segi, eru þarna inni atriði varðandi fæðingarorlof og almennar íbúðir. (Forseti hringir.) En ég hlakka til að taka umræður í framhaldinu (Forseti hringir.) og vonast til að þær verði málefnalegar og gagnlegar.