149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:39]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það er ljóst og ég hef sagt að það eru engar forsendur fyrir því að klára að innleiða starfsgetumat eða annað slíkt fyrr en hlutastörf liggja fyrir. Hvað varðar hið opinbera núna þá er samtal í gangi á milli ráðherra við að forma það með hvaða hætti opinberi geirinn geti stigið kraftmikil skref í þá veru. En síðan þarf almenni markaðurinn að fylgja á eftir og við þurfum að skoða hvernig hægt er að byggja upp slíka hvata.

Það er mjög mikilvægt að opinberi geirinn stigi fram og það er í undirbúningi en er ekki komið á þann stað að menn teldu ástæðu til að setja það sérstaklega inn í fjármálaáætlun. Ég bendi þó á að við erum með vinnusamninga öryrkja þarna inni líka.

Varðandi búsetuskerðingar erum við að ræða fjármálaáætlun 2020, ekki fjármagn yfirstandandi árs. Komið hefur fram að ráðuneytið er í samtali við fjármálaráðuneytið til að afla sér fjárheimilda til að geta hafist handa á árinu 2019 við það sem hægt er að ráðast í.