149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg og segja að ég held að við deilum algjörlega sýn í þessu. Þeim mun fyrr sem gripið er inn í, þeim mun betra. Ekki bara fyrir viðkomandi einstakling heldur þeim mun hagkvæmara fyrir ríkissjóð í heild þegar fram líða stundir.

Varðandi tengingu ríkisvaldsins við frjáls félagasamtök held ég að þetta sé eiginlega tvíþætt. Í fyrsta lagi þurfum við auðvitað að tryggja einhvern fyrirsjáanleika í fjármögnun þessara frjálsu félagasamtaka og einhverja heildarumgjörð í kringum frjáls félagasamtök. Ég veit að hæstv. ráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er með væntanlegt frumvarp sem á að koma félagasamtökum í eitthvert ákveðið form þannig að þau séu öll byggð upp með sama hætti varðandi gegnsæi og annað.

Í öðru lagi er tenging hins opinbera við þessi frjálsu félagasamtök. Hv. þingmaður nefnir til að mynda Hugarafl. Hvernig getum við tengt kerfið okkar inn í þessi samtök? Þar held ég að samspil alls þessa, þ.e. ríkisins, sem oft getur verið svolítið svifaseint og ferkantað, sem bara er eðli ríkisvalds að vera — og er ekki með frjálsu félagasamtökin — og lagaumgjarðarinnar varðandi félagsþjónustu, hvernig félagsþjónustulögin eru skrifuð, hvernig önnur löggjöf styður við frjáls félagasamtök og hvernig þetta talar saman. Þar held ég að þverpólitískur starfshópur sem hv. þingmaður er í gegni lykilhlutverki — í að forma hvernig við getum tryggt fyrsta stigs úrræði og samstarf þessara aðila.

Í tengslum við þá vinnu sé ég fyrir mér í framhaldinu, og við erum nú þegar aðeins byrjuð að vinna að því, m.a. með nýrri framkvæmdaáætlun í barnavernd sem væntanleg er til þingsins, að stíga skref sem miða að því að færa áhersluna meira á fyrsta stigs þjónustu.