149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að í fjármálaáætluninni er kynnt það fyrirheit að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði, líkt og stefna ríkisstjórnarinnar kveður á um. Í gildandi fjármálaáætlun eða þeim útreikningum sem þar standa að baki er gert ráð fyrir því að skiptingin sé fimm, fimm, tveir, þ.e. fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir til skiptanna. Í því sambandi gerum við ráð fyrir því að það séu 12 mánuðir á hvert barn.

Varðandi fæðingarorlofstöku feðra er mikið áhyggjuefni að eftir efnahagshrunið dró mjög úr því að feður tækju fæðingarorlof. Margir hafa tengt það við að greiðslur hafi verið lækkaðar mjög í fæðingarorlofi og því hafi af fjárhagslegum orsökum karlmaðurinn ekki tekið jafn mikið fæðingarorlof og móðirin. Þetta hefur aðeins lagast en þarna eru samt sem áður miklar áskoranir, eins og kemur fram í texta með fjármálaáætluninni. Vonandi er sú hækkun sem gerð hefur verið til þess fallin að auka þátttöku beggja kynja.

Eins og ég sagði gerum við ráð fyrir því að eyrnamerktir séu fimm mánuðir á hvort foreldri. Jafnframt held ég að ástæða sé til að skoða hvort ekki þurfi að fara í sérstakt kynningarátak eða hvatningu til þess að feður taki fæðingarorlof. Þó að við séum ofarlega á lista núna þá gátum við lengi vel státað okkur af því að vera langefst í heiminum hvað þetta snertir. En það eru teikn á lofti og við viljum að það sé þannig, ekki bara (Forseti hringir.) gagnvart jafnrétti heldur líka gagnvart rétti feðra og barna. Þetta þarf að vera eins jafnt og mögulegt er.