149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það þurfi að hækka frítekjumarkið og það stendur til. Við erum að endurskoða úthlutunarreglurnar og það verður tilkynnt um það á allra næstu dögum. Ég tel að hv. þingmaður verði bara nokkuð sáttur og býsna glaður með þá breytingu sem mun eiga sér stað.

Virðulegur forseti. Ég vil líka nefna það að þegar við erum að endurskoða kerfið miðar það mikið að því að bæta stöðu þeirra námsmanna sem eru með börn. Vegna þess að eitt af því sem við sjáum er að margir draga það að eignast börn og jafnvel ekki að taka lán meðan þeir eru í námi.

Tvennt er einkennandi fyrir þá sem eru á háskólastiginu á Íslandi, í fyrsta lagi að þetta eru oft nemendur sem eru með börn og að okkar nemendur klára námið seinna vegna þess að þeir vinna svo mikið með námi. Nýja kerfið sem við erum að fara að kynna tekur á báðum þessum þáttum og það sem mér finnst skipta mestu máli er að við erum að lækka umtalsvert þær skuldir sem námsmenn fara inn (Forseti hringir.) í framtíðina með.