149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:55]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Á málefnasviði fjármálaáætlunar um dómstóla er meginmarkmið sviðsins skilgreint sem svo, með leyfi forseta, „að traust ríki til dómstóla með því að tryggja greiðan aðgang að þeim og réttláta málsmeðferð.“ Framtíðarsýn málefnasviðsins er að borgarar skulu njóta réttaröryggis og grundvallarmannréttinda í hvívetna á Íslandi.

En hvergi, virðulegur forseti, á þeim málefnasviðum sem málið varða er vikið einu orði að dómi Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Íslandi vegna ólögmætrar skipunar dómara í Landsrétt, ekki einu orði. Þeim áskorunum sem við blasa vegna algerrar óvissu um getu Landsréttar til að dæma í málum í kjölfar dómsins er ekki lýst, ekki minnst á þann gríðarmikla kostnað sem hlýtur að falla til vegna framkvæmda dómsins, hvernig sem að þeirri framkvæmd verður staðið, og ekkert um hvernig standi til að bæta hinn óumflýjanlega missi á trausti til dómstólsins í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins.

Þess í stað er það að lesa fjármálaáætlunina eins og að stíga inn í hliðarraunveruleika þar sem dómur Mannréttindadómstólsins féll aldrei og allt leikur í lyndi í dómskerfinu og það eina sem þarf að gera til að efla traust á dómstólum og auka málshraða séu hinar ýmsu tæknilausnir og nýjungar sem fá áberandi mikið pláss í aðgerðaáætlun málaflokksins. Í málaflokknum er gert ráð fyrir nokkuð óbreyttum útgjaldaramma fyrir dómstólana og þar er fabúlerað, með leyfi forseta:

„Þegar horft er til reynslu síðustu ára af málafjölda hjá Landsrétti og áður Hæstarétti eru ekki forsendur til annars en að leggja svipaða þróun til grundvallar á komandi árum.“

Ég hefði haldið, herra forseti, að það væru verulegar ástæður til þess að draga þessar forsendur í efa.

Nú veit ég að það leið ekki langur tími frá því að dómur Mannréttindadómstólsins féll þar til fjármálaáætlun var birt, en ég get ekki kallað það annað en fullkomið ábyrgðarleysi og algera afneitun á raunveruleikanum að minnast ekki einu orði á Landsréttardóminn og afleiðingar hans þegar meginmarkmiðið er traust á dómstólum. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á þessum hliðarraunveruleika?