149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, í ljósi þess hversu gríðarlega alvarlegar afleiðingar eru af framræsluskurðum, en eins og fram hefur komið kemur um 73% af allri losun frá þessum mýraskurðum, þá er svolítið dapurt að heyra að við skulum ekki vera komin lengra á veg.

Það er eitt annað pínulítið atriði sem mig langar að nefna sem skelfir mig svolítið. Við eigum hér glæsilega, fallega laug sem er falin náttúruperla, Seljavallalaug, Seljalandslaug er hún kölluð líka. Við fengum að sjá myndir í gær í blöðunum, mig minnir að það hafi verið í DV eða á visir.is, ég man nú ekki hvar það var, af alveg ótrúlega dapri umgengni. Þarna er ferðamönnum treyst til að koma og fá að njóta þess að vera í þessari laug ef þeir kjósa svo. En umgengnin er slík og þvílík að það er ömurlegt á að horfa. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja ráðherra hvort það sé hægt í stöðunni að efla eftirlit með svona náttúruperlum eins og Seljavallalaug.