149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við skulum endilega að gera það þegar við höfum aðeins lengri tíma. En loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar þarf að snerta öll málasvið og alla málaflokka ríkisfjármála. Þegar Benedikt Erlingsson tók við kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir myndina Kona fer í stríð sagði hann eitthvað á þá leið að nú þyrftu stjórnmálamenn að lofa fólki minna af öllu til þess að takast á við hlýnun jarðar, en þeir gætu í staðinn boðið meiri ást. Þetta fannst mér fallegt. Er þetta ekki einmitt það sem við þurfum að gera? Þurfum við ekki að breyta neysluvenjum okkar, draga úr allri neyslu og minnka kolefnissporin með þeim hætti og fylla síðan upp í tómið með meiri ást og meiri umhyggju?