149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:36]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Já, við erum sannarlega búin að auka framlögin til þróunarsamvinnu á síðustu árum, enda mætti annað vera óeðlilegt. Þjóðarhagur hefur vænkast gríðarlega á síðustu árum og það er miðað við hlutfall. En Sameinuðu þjóðirnar miða við 0,7% og það samþykktum við. Við náum því ekki. Er það ekkert öfugsnúið þegar við gætum verið að leggja svo miklu meira af mörkum?

Nú var hæstv. ráðherra nýverið í Malaví og sá með eigin augum hversu miklu okkar aðstoð hefur skilað. Það eru mjög erfiðar aðstæður sem þar eru. Okkur ber sannarlega að hjálpa.

Annars langaði mig að lokum að grípa aðeins það sem hæstv. ráðherra sagði áðan og spyrja: Má skilja það sem svo að ef ráðherra fengi einn að ráða væri mun meira sett í málaflokkinn en er gert hér?