149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Bara svo að það sé sagt hvikum við hvergi frá markmiðum okkar eða metnaði. En þegar dómur þingsins er kominn sjáum við hvað við fáum mikla fjármuni og þá reynum við að spila úr þeim. Hv. þingmaður vísaði réttilega í það að þótt við séum með pínulitla utanríkisþjónustu getur hún gert eitthvað sem skiptir máli. Hv. þingmaður nefndi nýlegt dæmi, sem er mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, þótt það mætti nefna mörg fleiri.

Síðan aðeins um þróunarsamvinnuna almennt. Við skulum ekki gleyma því að hlutfallslega hafa fáir málaflokkar, kannski líka heilbrigðismálin eða lífeyrisþegarnir, hækkað jafn mikið á undanförnum árum og þróunarmálin. Við erum að tala um margra milljarða aukningu á hverju ári. Við erum að koma okkur vel yfir meðaltal OECD-ríkjanna hlutfallslega, en betur má örugglega ef duga skal. Ég held að við eigum líka að ræða hvernig (Forseti hringir.) við getum nýtt þá fjármuni sem best, vegna þess að það er til lítils að setja aukningu í þróunarmál ef hún nýtist ekki fyrir það fólk og þau svæði sem við leggjum áherslu á að reyna að aðstoða.