149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar við förum svona nákvæmlega ofan í einstaka þætti þá væri alla vega ekki verra að fara yfir það í hv. utanríkismálanefnd, en það er sjálfsagt að fara yfir það hér núna. Varðandi samstarfssjóðinn er gert ráð fyrir því að í hann fari 400 milljónir á næstu fjórum árum. Það er ekki tekið af neinu því aukningin er náttúrlega margfalt meiri en sem nemur þessum fjármunum.

Hér er einfaldlega verið að koma til móts við það, virðulegi forseti, sem kallað er eftir. Við erum hér að gera það nákvæmlega sama og þau lönd sem við berum okkur saman við. Það eru Norðurlöndin sérstaklega en á auðvitað við fleiri lönd. Til að ná árangri í þessum löndum þarf að byggja upp atvinnulífið og hið opinbera mun ekki fara í það nema að mjög litlu leyti. Þetta verður ekki gert öðruvísi en að atvinnulífið komi að því. Það er kallað eftir því að atvinnulífið komi að þessum málum og það (Forseti hringir.) gerir það svo sannarlega í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Við skulum vona að (Forseti hringir.) þessi sjóður muni skila tilætluðum árangri og íslenskt atvinnulíf muni taka virkan þátt í þróunarverkefnum.