149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:28]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Já, ég er svolítið hissa. Ég hélt að það væri að sjálfsögðu Hafrannsóknastofnun sem sinnti rannsóknum á lífríki og vistkerfi sjávar, en gerir það greinilega ekki þegar kemur að landgrunninu ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Ef það er þá er það bara gott og blessað. Ég fagna því ef verið er að setja fjármuni í þetta.

Mig langar að halda áfram að hrósa ráðherra örlítið og fagna því leiðarljósi sem birtist í utanríkisstefnu Íslands. Við höfum heilmikið fram að færa gagnvart nákvæmlega þessum grunngildum og sérstaklega þegar kemur að friðsamlegum lausnum. Ég hef þó nokkrar áhyggjur af því, herra forseti, að ekki sé verið að skapa ráðuneytinu ramma til að sinna verkefnum sínum.

Við lestur áætlunarinnar vakti málsgreinin um yfirtöku utanríkisráðuneytisins á leyfisveitingum vegna hergagnaflutninga með borgaralegum loftförum athygli mína. Þar segir orðrétt að ólíklegt sé að ráðuneytið nái að sinna verkefninu sem skyldi innan núverandi útgjaldaramma. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann geti raunverulega sætt sig við að þingið samþykki þessa fjármálaáætlun eins og hún stendur hér með það í huga að ráðuneyti hans virðist ekki telja sig geta sinnt verkefnum sem skyldi.