149. löggjafarþing — 86. fundur,  28. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú líður að lokum þessarar fyrri umr. um fjármálaáætlun, sem vissulega er lögð fram við nokkra óvissu í efnahagsmálum, en ríkisstjórnin gerir það sem boðað er, byggir á opinberum hagspám, enda held ég að það hafi nú ekki komið fram í þessari fyrri umr. að við nokkurt annað viðmið væri að styðjast. Við birtum sömuleiðis fráviksspá í þessari áætlun sem menn geta haft sínar skoðanir á og ég hef heyrt hér í umræðunni að menn telji hana allt of bjartsýna. En þetta er hinn eini sanni, rétti grunnur til að gera áætlun til næstu ára á.

Ég verð síðan að segja að það eru vonbrigði að sjá rekstur flugfélagsins WOW stöðvast í dag. Við munum þurfa að taka það með í reikninginn. Við þurfum að leggja mat á áhrifin af því fyrir tekjur og fyrir útgjöld — og ég vænti þess að geta átt gott samstarf við nefndina í því efni.

Það sem vekur athygli mína í þessari umræðu er hversu mikill himinn og haf er á milli sjónarmiða hjá einstökum flokkum. Má ég nefna sjónarmið sem Samfylkingin færir inn í umræðuna sem byggir á því að ríkisstjórnin hafi komið þjóðarbúinu í algjöra spennitreyju með efnahagsstefnu sinni, algera spennitreyju, og nú séu það velferðarmálin sem þetta bitni allt saman á. Hverju hefur ríkisstjórnin breytt frá því að hún tók við, ef við skoðum framlög til velferðarmálanna sem Samfylkingunni eru mest hugleikin? Ríkisstjórnin hefur hækkað framlög til heilbrigðismála, svo dæmi sé tekið, frá árinu 2017 fram á næsta ár samkvæmt þeirri áætlun sem við erum með hérna fyrir framan okkur. Framlög til heilbrigðismála hafa farið upp um 31,1 milljarð. Það er spennitreyjan sem heilbrigðiskerfið er í. Þetta er 14% aukning á framlögum. Til félagsmála hafa framlögin vaxið frá árinu 2017, þegar kosið var, um 29,3 milljarða, sem er 16% aukning. Þetta lýsir ekki beint þjóðfélagi í spennitreyju í velferðarmálum, þvert á móti stöndum við í miðri sókn.

Þeirri sókn er haldið áfram í þessari áætlun.

Því er sömuleiðis haldið fram að hér hafi tekjustofnar ríkisins markvisst verið veiktir. Ég verð bara að segja: Þetta er ákveðin hugmyndafræði sem mér hugnast ekki, að í sérhvert sinn sem við skiljum meira svigrúm eftir hjá fólki eða fyrirtækjum, þeim sem eru að leggja á sig vinnu til að halda fjölskyldunni á floti eða taka áhættu með sínu sjálfsaflafé, í hvert sinn sem við minnkum álögur á þessa hópa heiti það hjá Samfylkingunni markvisst „að veikja tekjustofna ríkisins“. Hjá okkur heitir þetta að veita súrefni til fólks, létta undir með fólki, gera fólki auðveldara að ná markmiðum sínum, styðja betur við atvinnustarfsemina í landinu til að einhver verðmæti verði til til að mæta öllum þessum kröfum um ný útgjöld.

Þarna er greinilega mjög mikill hugmyndafræðilegur ágreiningur.

Ég verð þó að segja varðandi þau sjónarmið sem Viðreisn færir inn í umræðuna að þar kveður við allt annan tón. Þar höfum við ekki sett þjóðarbúið í spennitreyju — við erum búnir að eyða allt of miklu. Það er vandamálið hjá þeim flokki. Við höfum sett allt of margar krónur á útgjaldahliðina. Það er eins og Samfylkingin og Viðreisn horfi bara algjörlega hvor á sín ríkisfjármálin.

En gott og vel, spyrjum okkur hvort við höfum haldið þannig á málum í gegnum góðærið að við höfum varið of miklu af ávinningi skuldalækkunarinnar og hagvaxtarskeiðsins og lendum í vandræðum þegar fer að hægja á í hagkerfinu.

Ég vil nefna nokkra þætti sem benda til annars. Í fyrsta lagi höfum við á undanförnum árum, ef við tökum einskiptisliðina með, rekið ríkissjóð með mörg hundruð milljarða afgangi. Það er ein af helstu forsendum þess að við höfum náð að lækka skuldir og vaxtabyrði. En jafnvel þó að við horfum fram hjá einskiptisliðunum skiptir afgangurinn ekki bara tugum heldur líklega í kringum 100 milljörðum síðustu árin, jafnvel þó að við horfum fram hjá einskiptisliðum.

Þannig höfum við rekið ríkissjóð með afgangi ár eftir ár og byggt upp viðnámsþrótt fyrir tíma þegar hagvöxtur er minni. Við erum núna með áætlun í höndunum sem byggir á því að á næsta ári verði góður afgangur, sem er ferðalag eftir þessum sama vegi. Það sýnir okkur að ef eitthvað kemur upp á, ef það dregur úr tekjum, ef grundvallarforsendurnar, eins og menn eru að segja hér, hafa brostið, höfum við einmitt borð fyrir báru.

Ég leyfi mér líka að nefna hér að samneyslan vex ekki stöðugt með hagvextinum, hún stendur nokkurn veginn í stað; þannig að við erum ekki að íþyngja ríkissjóði hlutfallslega meira, þrátt fyrir að hér vaxi tekjur. Síðan má spyrja: Höfum við verið að reka það sem Viðreisn kallar „gjaldþrota ríkisfjármálastefnu“? Bendir skuldaþróunin til þess? Nei. Bendir vaxtastigið í landinu til þess að menn horfi á þetta hagkerfi og segi: Þetta eru auðvitað gjaldþrota ríkisfjármál? Bendir eitthvað til þess í vaxtastiginu? Nei, ríkissjóður fær í dag hagstæðustu vexti sem við höfum nokkru sinni fengið. Bendir lánstraust ríkisins til þess að menn líti á þessi ríkisfjármál og segi: Hér eru menn að fara fram af hengifluginu? Nei, við erum með betra lánstraust en áður.

Hvað með verðbólguna? Er ríkissjóður að ausa fé úr sjóðum sínum þannig að það bara kyndi undir verðbólgu? Nei, verðbólga hefur verið stöðug. Og hvernig hefur gengið að bæta kjörin hjá fólki sem þetta starf okkar allt snýst um? Kaupmáttur hefur sjaldan vaxið meira en undanfarin ár.

Ég verð að segja að mér finnst vera afskaplega lítil innstæða fyrir þessum stóru, þungu orðum, að við höfum eytt síðustu krónunni. Við höfum ekki eytt síðustu krónunni. Við höfum snúið vaxtabyrði yfir í velferðarmál. Það er það sem við höfum gert. Nú erum við að komast í skuldahlutfall — við erum að komast í kringum 20%-viðmiðið samkvæmt skuldareglunni, ef spár ganga eftir. Undir lok síðasta árs fórum við undir 30% og spár benda til þess að við getum stefnt í átt að 20% á þessu áætlunartímabili. Það myndi búa til rétt um 300 milljarða svigrúm fyrir hið opinbera, ríki og sveitarfélög, áður en menn væru farnir að brjóta skuldaregluna, þ.e. skuldaviðmiðið, 30%-viðmiðið.

Það sýnir hversu vel við höfum búið í haginn fyrir framtíðina. Ef ríkisfjármálin þurfa að taka á sig fallið í framleiðslu í landinu getum við rekið ríkið með halla í einhvern tíma og komist léttilega frá því — ef ekki verða önnur meiri háttar áföll.

Ég verð að segja varðandi ferðaþjónustuna í landinu: Hver trúir því ekki hér í þessum sal að til lengri tíma séu tækifærin þar ómæld? Hver trúir því að með falli eins flugfélags bresti trú og áhugi ferðamanna á því að koma til Íslands í framtíðinni og upplifa náttúruna og víðernin sem hér eru? Hver trúir því í raun og veru í hjarta sínu? Auðvitað erum við öll slegin en við verðum að rísa upp og horfa aðeins inn í framtíðina, til lengri framtíðar, og spyrja okkur hvað við getum gert í dag til að láta þessi tækifæri verða að veruleika í framtíðinni. Það held ég að sé alveg augljóst og ég trúi ekki öðru en að hér séu menn meira sammála en umræðan ber með sér um að framtíðin sé þrátt fyrir þetta áfall ótrúlega björt.

Svo hafa komið hér sömuleiðis fram sjónarmið — eins og í síðustu ræðu frá Flokki fólksins — um að vandinn sé sá að við séum ekki með meiri útgjöld, sérstaklega til þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Ég verð alltaf jafn furðu lostinn þegar lítið er gert úr því að við skulum lækka álögur á þá hópa og sagt að það sé engan veginn nóg. Það sem er að í þessari umræðu, sem snýst eingöngu um útgjaldamál, að við þurfum að setja meira í þetta og meira í hitt, er að það skortir alla alvöru djúpa umræðu um verðmætasköpun í þessu landi, hvað við getum gert til að auka útflutningsverðmætin, auka framleiðni í landinu, þar með talið hjá hinu opinbera, að hið opinbera verði skilvirkara, sveigjanlegra, þjónustulundaðra, að við séum ekki með fleira fólk á launaskrá en verkefnin kalla á, að við tökum í gagnið tæknilausnir til að veita betri þjónustu með skilvirkari hætti, meiri hagkvæmni, auka framleiðni í landinu, fá fjárfestingu inn á fleiri svið.

Þessi ríkisfjármálaáætlun er sú öflugasta á sviði nýsköpunar sem sést hefur og þannig leggjum við grunn (Forseti hringir.) að þessum mikilvægasta þætti, framleiðni og verðmætasköpun í framtíðinni.

Ég þakka fyrir ágæta umræðu og vænti góðs samstarfs við nefndina.