149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

leiðrétting vegna búsetuskerðinga TR.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að þetta mál strandar ekkert á fjárheimildum. Það gerist reglulega að ríkið fær á sig kröfur sem það þarf að standa undir sem ekki var gert ráð fyrir og þær geta t.d. verið teknar af varasjóði. Sá sjóður stendur á móti greiðslum sem þessum. En við þurfum auðvitað að fá botn í það hvað er rétt greiðsla og hvað á að greiða mikið. Það á bara að borga samkvæmt reglunum. Það á að borga rétta greiðslu. Það á ekki að borga of mikið. Hafi fólk t.d. notið bóta þann tíma sem það bjó í öðru landi, eigi það uppsöfnuð réttindi sem það fær enn þá útgreidd vegna réttindaávinnslu í fyrra búsetulandi, á það að dragast frá, annað væri ofgreiðsla. Og til að fá niðurstöðu í þetta mál í heild sinni þarf að skoða hvert einasta mál. Sú vinna stendur yfir.