149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

586. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti okkar í utanríkismálanefnd um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er varðar fjármálaþjónustu og þá sérstaklega vátryggingarþjónustu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon og Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneytinu.

Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018, nánar tiltekið var það 26. október 2018, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 97/2016, um sölu vátrygginga, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 411/2018, um breytingu á tilskipunum er varðar lögleiðingarráðstafanir aðildarríkjanna.

Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 27. apríl 2019. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipun þessari er ætlað að vernda hagsmuni þeirra sem fá þjónustu vegna kaupa eða væntanlegra kaupa á vátryggingum. Töluverðar breytingar verða á regluumhverfi vátryggingamiðlunar, einkum með tilliti til neytendaverndar. Helstu efnisbreytingarnar varða gildissvið reglnanna sem munu ná yfir vátryggingamiðlara, vátryggingafélags og aðila sem selja vátryggingu sem aukaafurð, auk þess sem skilgreiningar um hæfisskilyrði verða gerðar skýrari og gildissvið slíkra skilyrða rýmkað. Í tilskipuninni eru gerð auknar kröfur um upplýsingaskyldu til vátryggingataka, hæfi þeirra sem selja vátryggingar og hvað teljist góðir og gildir viðskiptahættir. Þá eru nánari reglur um gagnkvæma viðurkenningu, eftirlit stjórnvalda og viðurlög

Tilskipunin felur einungis í sér breytingu á gildisdagsetningu fyrri tilskipunar. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingu. Fyrirhugað er að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á yfirstandandi þingi fram lagafrumvörp til innleiðingar á tilskipunum. Þau hafa reyndar þegar verið lögð fram en ekki verið mælt fyrir þeim. Annars vegar er það mál nr. 764, um dreifingu vátrygginga, sem var útbýtt 30. mars sl., og hins vegar mál nr. 763, um vátryggingarsamninga, sem var útbýtt 28. mars sl.

Mér finnst ástæða til að ítreka að þetta mál hefur fengið þá umfjöllun sem við hæfir og er samkvæmt reglum okkar um þinglega meðferð EES-mála. Málið var sent til utanríkismálanefndar á sínum tíma áður en það var tekið upp í EES-samninginn. Í bréfi utanríkismálanefndar, dagsettu 21. mars 2018, kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og fylgir bréfinu álit efnahags- og viðskiptanefndar þar sem gerðin fékk efnislega umfjöllun. Í bréfinu voru ekki gerðar athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samningnum. Þannig hefur þetta mál fengið umfjöllun bæði í utanríkismálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd um að taka þá gerð upp í EES-samningnum.

Með þessari þingsályktunartillögu afgreiðum við þetta með stjórnskipulegum fyrirvara og á næstunni munum við svo taka fyrir umræðu um þau tvö frumvörp sem fylgja í kjölfarið.

Undir nefndarálitið skrifa ásamt mér hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður nefndarinnar, Ásgerður K. Gylfadóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Ari Trausti Guðmundsson, Logi Einarsson og Smári McCarthy.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.