149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[17:19]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið. Ég skil vel að ríkissjóður, stjórnarliðar eða ráðherra sé að reyna að stöðva lekann sem er augljóslega hjá Íslandspósti, þann mikla leka sem þar er og er ekkert grín. Í umhverfis- og samgöngunefnd er verið að vinna frumvarp sem á að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að Íslandspóstur verði ekki einn með þetta verkefni. Staðan var okkur ekki hulin, þetta er ekki eitthvað nýtt. Þetta hefur heyrst undanfarin ár. Þetta var líka viðkvæðið fyrir tíu árum, að þetta væri vandi og er orðinn meiri vandi með meiri fjölda pakkasendinga að utan.

Maður veltir líka samráðinu fyrir sér, hvort samráð hafi verið haft við einhvern í ráðuneytinu, t.d. við þá sem tala fyrir neytendur á Íslandi. Svo er það bara þessi spurning: Mun þetta þá heimila öllum að leggja aukagjald á alla þá sem hugsanlega flytja póstsendingar til landsins, einkaaðila sem og aðra, eftir skamman tíma?