149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[17:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um loftslagsmál. Mig langar að segja að ég fagna því ávallt þegar við fáum tækifæri til að ræða umhverfismál og loftslagsmál. Við gerðum það síðast í síðustu viku sem var mjög gott og ég held að við ættum að gera meira af því.

Mig langar að nefna sérstaklega mikilvægi þess að atvinnulífið sé dregið með inn í þá vinnu. Það að leysa loftslagsmálin er ekki bara hlutverk ríkisins því að ef við ætlum að ná einhverjum árangri í þeim efnum verðum við að vinna með sveitarfélögunum, atvinnulífinu og auðvitað félagasamtökum. Allt snýst þetta um að breyta hegðun okkar. Ég fagna þeirri áherslu sem lögð er á það í frumvarpinu.

Ég velti því samt aðeins fyrir mér, ef ráðherra kemur aftur upp á eftir, hvort þetta verði í rauninni sett inn í reglugerð. Þá er ekki í lögunum ákvæði um fulltrúa í ráðinu heldur er verið að auka svigrúmið með því að ráðherra hafi ákvörðunarvald um þetta í reglugerð. Í greinargerðinni segir að nú séu skipaðir fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Festu, sem er miðstöð um samfélagsábyrgð, Bændasamtökunum, tveimur fulltrúum tilnefndum af háskólasamfélaginu og tveimur fulltrúum frá umhverfisverndarsamtökum, sem mér finnst gott mál og ég efast ekki um að þetta ráð sé mjög vel skipað.

Mér finnst mikilvægt að skýrt sé kveðið á um það í lögunum að við þurfum breiða aðild og þótt ég treysti hæstv. ráðherra að sjálfsögðu til þess að leggja áherslu á það hverjir eigi að vera í slíku ráði veit maður aldrei hvað gerist í framtíðinni. Við erum t.d. með forseta í Bandaríkjunum sem getur dottið ýmislegt í hug þannig að mér finnst spurning hvað það er sem ræður ákvörðuninni. Ég geri ráð fyrir því að nefndin fjalli um það og hvort það sé eitthvað í frumvarpinu sem tilgreini sérstaklega þá breidd og vídd sem mikilvægt er að hafa í ráðinu og í aðkomu að þeim málum.

Þá vil ég líka nefna að eins mikilvægt og það er að við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda er einnig mikilvægt að við bindum og ekki síður finnst mér mikilvægt að horfa á aðlögun íslensks samfélags að þeim breytingum sem við erum þegar erum farin að sjá fram á og munum sjá fram á á komandi árum og áratugum.

Það var ágætisþing sem Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir í síðustu viku um loftslagsmálin og hversu mikilvægt það er að sveitarfélögin séu meðvituð um þau mál því að það er svo margt í skipulagsmálunum t.d. sem þarf að huga sérstaklega að þegar kemur að loftslagsmálum. Oft og tíðum geta þetta verið einfaldar lausnir, eins og blágrænar ofanvatnslausnir, sem skipta samt sem áður gríðarlega miklu máli, hvernig við högum skipulagi byggðar, hvernig mannvirkin okkar eru byggð upp, hvort sem það eru fráveitumannvirki, brýr, vegir eða annað, hvar við erum að byggja, sem sagt hækkun yfirborðs sjávar, hversu nálægt megi fara sjó eða vötnum. Allir þeir þættir þurfa að mínu viti — og segi ég það með margra ára reynslu af sveitarstjórnarmálum og vissulega var þetta skoðað í sveitarfélagi mínu, en ég er samt á þeirri skoðun að við hefðum þurft að skoða það enn betur og enn fyrr, því að af mjög mörgu er að taka. Þarna getur Skipulagsstofnun vissulega veitt ráðgjöf og mikilvægt að sveitarfélögin, sem eru mismunandi að stærð og mismunandi burðug til að takast á við verkefni, hafi einhverja handbók og leiðsögn um það hvernig eigi að bera sig að. Eitthvað af því er auðvitað tilgreint í reglugerðum, sem geta þó stundum verið of miklar kvaðir á.

Fyrst og síðast held ég að mikilvægt sé að þau mál séu rædd af mikilli alvöru og þá legg ég áherslu á þetta með viðbrögðin. Ég er alls ekki að gera lítið úr hinu, sem er auðvitað stóra málið, að draga úr losun og binda, en mér finnst eins og við séum kannski komin enn þá styttra í umræðunni um það hvernig við eigum að bregðast við þeim breytingum sem eiga sér stað.

Virðulegur forseti. Ég þakka að lokum kærlega fyrir þetta frumvarp og treysti því að nefndin fari vel og ítarlega yfir það. Við fáum svo annað tækifæri til að ræða það þegar okkur hafa borist umsagnir. Ég held að þetta mál eigi mikið erindi hingað og við þurfum að gera miklu meira af því að ræða mál sem þetta.