149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

762. mál
[21:30]
Horfa

Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Ég þakka svarið. Það gleður mig að heyra að fjármálaráðherra hefur fullan hug á því að hlusta á röksemdir í þessu máli. Ég get vel skilið að einhverjir sem um þetta véla hafi kannski ekki vitað að jafnvel þótt t.d. tónlistarmenn, sem ég þykist vita að hafi haft dálitla forystu í baráttunni í þessu máli, fái núorðið megnið af sínum tekjum í gegnum samtök af þessu tagi, hvort sem það er STEF eða IHM eða Fjölís eða hvað þau heita, á það alls ekki við um höfunda. Hér er að vísu vísað til Rithöfundasambandsins sem gerir samninga fyrir höfunda, en eftir það eru engin fjárhagsleg samskipti sem fara í gegnum það batterí. Semji menn eins og ég segi við leikhús, tímarit, útvarpsstöð, framleiðendur eða bókaútgefendur eru það milliliðalausir samningar milli höfundarins og viðkomandi.

Ég nefndi í lokin að við höfundar hefðum orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun að hætta við að fella niður virðisaukaskattinn af bókum. Þetta hefur lengi verið okkar helsta baráttumál. Við bjuggum við það í nokkur ár, sem var mjög góður tími að mörgu leyti, að það var ekki þessi skattur á bækur. Síðan var ákveðið að hætta við að efna það fyrirheit úr stjórnarsáttmálanum, fyrirheit sem hafði komið í ljós fyrir síðustu kosningar að var meiri hluti fyrir að standa við í þinginu. Að vísu var ákveðið í staðinn að rétta útgefendum einhverja dúsu, einhverja peninga úr ríkissjóði. Það er svona álíka og ef sjómenn hefðu barist fyrir einhverjum kjaramálum lengi og síðan fengju þeir loforð um að þetta yrði lagað og þeir fengju sín kjör bætt, en svo yrði þeim tilkynnt að það væri hætt við það en þeir gætu verið ánægðir samt því að ríkissjóður hefði ákveðið að gefa útgerðarmanninum þeirra glænýjan Range Rover.