149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Síðasta laugardag, 30. mars, voru 70 ár liðin frá því að hér á Alþingi var samþykkt með þingsályktunartillögu að Ísland yrði stofnaðili að hernaðarbandalaginu NATO. Þetta hefur því alltaf verið svartur dagur í augum okkar friðarsinna. Þennan dag, árið 1949, brutust út miklar óeirðir fyrir framan þinghúsið þar sem bæði voru samankomnir þeir sem mótmæltu því að við gerðumst aðilar að NATO en einnig aðrir sem studdu það. Laust fylkingunum saman og höfðu hinir svokölluðu hvítliðar m.a. verið fengnir til þess að mæta mótmælendum með mikilli hörku.

Krafa fólksins á Austurvelli sem ekki vildi inngöngu í NATO var að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillöguna. Í takt við stefnu okkar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og líka í takt við þá kröfu sem sett var fram á Austurvelli árið 1949 höfum við nú lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hreinlega verði spurt: Vilt þú að Ísland gangi úr Atlantshafsbandalaginu, NATO? Svarmöguleikarnir verða nei eða já.

Það hefur alltaf verið málstað okkar friðarsinna til framdráttar að fá upp umræðu um slík efni og ég vona að þessi leiðu tímamót, þegar 70 ár eru liðin frá því að við gengum í NATO, verði til þess að við ræðum hvaða þýðingu það hefur að við séum aðili að slíku hernaðarbandalag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)