149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Samkvæmt fréttum sem berast þessa klukkutímana virðist hilla undir að kjarasamningum á almennum markaði sé að ljúka. Það er mikið gleðiefni og auðvitað vonar maður að aðilar hafi náð samningum sem séu á skynsamlegum nótum og muni skapa áframhaldandi hagvöxt og hagsæld hjá bæði fyrirtækjum og einstaklingum og að með þeim sé afstýrt tjóni sem af frekari verkföllum hefði orðið.

Það er þó einn óvissuþáttur í þessum fréttum, sá að nú stendur upp á ríkisstjórn Íslands að koma að þessu máli til að liðka fyrir. Ég get alveg viðurkennt að ég er ekkert gríðarlega bjartsýnn eftir feril þeirrar stjórnar síðustu 18 mánuði eða svo.

Ég fylgist hins vegar mjög spenntur með því hvort þær kröfur eða sá vilji verkalýðsforystunnar sem fram hefur komið um að hér verði dregið úr vaxtaokri og það verði breytt til í vísitöluútreikningi, hvort slíkar hugmyndir rata inn í þá lausn sem ríkisstjórnin verður að koma fram með í dag.

Það má segja að þessi dagur sé nokkurs konar álagspróf á ríkisstjórnina og við fáum að sjá eftir nokkra tíma hvort ríkisstjórnin stenst þetta álagspróf. Ég ætla að láta hana njóta vafans en ég er ekki bjartsýnn. Að sjálfsögðu munum við þá fjölmenna upp í þennan stól og finna að því ef illa gengur en auðvitað vonar maður það besta. Ég bíð sem sagt spenntur eftir útspili ríkisstjórnarinnar til að leysa þessa deilu.