149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir svarið. Við vitum nokkurn veginn hvernig hann vill hafa fæðuna sína og nokkuð ljóst að hann er ekki á leiðinni að verða vegan. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það sem við horfum upp á núna, burt séð frá dýrasjúkdómum og öðru slíku, sem við erum með ákveðna sérstöðu í, er það hvar við stöndum gagnvart fjölónæmum sýklalyfjabakteríum, og ég held að landinn almennt velti því fyrir sér. Það er grafalvarlegt mál þegar við vitum að mest af því kjöti sem flutt er hingað inn hefur á uppvaxtartíma skepnunnar sem það er af verið gjörsamlega pakkfullt af sýklalyfjum til að koma í veg fyrir alls konar sjúkdóma og sýkingar á líftímanum. Þetta er vitað, þetta er þekkt. Það er ekki neinn óvissuþáttur, þetta er til framtíðar litið talið eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál sem við munum horfast í augu við næstu áratugina. Það er bara spurning hvenær það slær okkur í rot.