149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:53]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, þ.e. innflutningi á búfjárafurðum.

Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóða og öfluga kynningu á þessu frumvarpi. Einnig vil ég þakka einum hv. þingmanni fyrir innblásna og öfluga ræðu fyrr í dag, hv. þm. Haraldi Benediktssyni. Með leyfi forseta er óhætt að segja að gamli Halli hafi verið mættur aftur og því ber að fagna.

Frumvarpið ætla ég svo sem ekkert að dvelja mjög lengi við. Það er alveg ljóst út á hvað þetta frumvarp gengur. Það gengur fyrst og fremst út á að mæta þessum dómi, þ.e. að afnema frystiskylduna. Mér finnst menn hafa verið svolítið fastir hér undanfarið í söguskýringum og upprifjunum. Þó svo að ég hafi hælt hv. þm. Haraldi Benediktssyni fór hann alveg aftur til ársins 1949. (Gripið fram í: Sjö.)1947. En við verðum að velta því fyrir okkur hvernig við tökumst á við framtíðina og ætla ég að reyna að koma inn á það í minni ræðu.

Auðvitað er margt að varast í því sem fram undan er. Lífið er alltaf áskoranir, við þurfum stundum að leita annarra leiða en við höfum haft fyrir framan okkur. Ég hefði feginn viljað hafa hér endalausa frystiskyldu og risastóra tollmúra og þar fram eftir götunum, en veruleikinn er bara ekki þannig. Hvernig ætlum við að styðja og styrkja íslenskan landbúnað þannig að hann komi til með að blómstra í framtíðinni?

Stórt er spurt. Þá er best að reyna að svara því.

Ég er ekkert með patentlausnir á því frekar en neinn annar, en í sameiningu trúi ég að við getum alltaf fundið leiðir til þess að nálgast þetta markmið, sama hvar í flokki við stöndum — og hvað mun hafa verið hér og áður og alls staðar annars staðar. Í þessu frumvarpi kemur ágætlega fram aðgerðaáætlun. Í þeim gögnum sem ég er með er hún í 15 liðum, margir hafa nú verið að tala um 12 hér fyrr í dag.

Ég velti því fyrir mér þegar við komum að þessari aðgerðaáætlun: Til að þessi aðgerðaáætlun verði virkilega gott gagn, er ekki skynsamlegast að hún sé þingsályktun sem fylgi frumvarpinu? Ég mundi leggja til að menn skoðuðu það, því að við vitum alltaf að það sem fylgir frumvörpum, hvort sem er í greinargerðum eða einhverju öðru, bítur ekki alveg eins mikið. En ef við værum með þetta í þingsályktun og tækjum þessa aðgerðaáætlun og gerðum hana enn öflugri en hún er nú þegar, þá óttast ég ekkert þegar við innleiðum þetta frumvarp.

Ég tek það líka fram að við þurfum, tel ég, lengri aðlögunartíma til að innleiða allar þessar áætlanir. Ég tel að fram til 1. september sé of knappur tími. Ég skal glaður éta það ofan í mig ef ég hef rangt fyrir mér, en ég tel að þetta þurfi atvinnuveganefnd að skoða, eins og svo margt í þessu máli.

Einnig þurfum við að taka það svolítið föstum tökum og velta fyrir okkur hvernig við getum gert íslenskan landbúnað eins samkeppnishæfan og hægt er við þann innflutning sem fram undan er; því að það er alveg óumflýjanlegt að það verður innflutningur. Afurðastöðvum á Íslandi hefur verið líkt við krækiber hér í dag. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt lýsing, þ.e. þetta eru krækiber miðað við þau risafyrirtæki sem við eigum í samkeppni við.

Ég hef verið óþreytandi við að tala um endurskoðun á starfsumhverfi afurðastöðva og veit að hæstv. ráðherra finnst ég stundum leiðinlegur þegar ég kem inn á þetta, en ég ætla að halda áfram að þreyta hann með því.

Það er algjört lykilatriði fyrir íslenskan landbúnað að afurðastöðvar í kjötiðnaði geti sameinast, geti unnið saman til að mæta þeim áskorunum sem fram undan eru. Það er algjört lykilatriði. Síðan skulum við velta fyrir okkur innflutningnum.

Það er búið að tala hér um viðbótartryggingar fyrir kampýlóbakter, viðbótartryggingar fyrir salmonellu. Það er óheimilt að dreifa ógerilsneyddri mjólk. Bætum við einu atriði í viðbót: Bönnum dreifingu á matvörum sem innihalda visst mikið magn af fjölónæmum bakteríum. Ég reikna með því að atvinnuveganefnd skoði þessar leiðir mjög vel, því að ef við förum þessa leið, að banna dreifingu á vörum sem innihalda kampýlóbakter og salmonellu og bönnum dreifingu á ógerilsneyddri mjólk og matvörum sem innihalda visst mikið magn af fjölónæmum bakteríum, erum við komin með ansi öflugar varnir.

En við verðum þá líka að gera kröfur til okkar eigin landbúnaðar í þessu samhengi. Gerum alltaf mestar kröfur til okkar sjálfra, því þá fyrst verður tekið mark á okkur. Það verður aldrei tekið mark á okkur ef við ætlum að verja okkur með einhverjum öðrum ráðum. Kröfurnar verða fyrst að koma hér heima fyrir. Það er algjört lykilatriði.

Ég geri mér líka grein fyrir því að þessu fylgir að við þurfum að rannsaka. Það þarf að auka eftirlit. Okkur vantar upplýsingar um okkar eigin landbúnað. Hvar erum við stödd á þessu róli?

Við vitum það nokkuð vel hvað varðar kampýlóbakter. Það er búið að skima fyrir kampýlóbakter í töluvert mörg ár. Það er skimað fyrir salmonellu, veit ég, alla vega í sumum sláturhúsum. Ég þekki ekki alveg regluverkið í kringum það. Við vitum það og þekkjum öll að við erum með bann við dreifingu á ógerilsneiddri mjólk. Og við þurfum þá einnig að skima fyrir fjölónæmum bakteríum.

Staða okkar er mjög sérstök á heimsvísu þegar kemur að hreinleika landbúnaðarafurða. Ég fullyrði að engin önnur þjóð býr við þessa auðlind, að vera með því sem næst ómengaða afurð. Ég segi „því sem næst“. Ég vil að menn hafi það bak við eyrað. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að halda því þannig.

Með því er ég ekki að segja að þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson er að leggja fram sé handónýtt. Það er gott skref. Við erum á ágætri vegferð. Við þurfum bara að bæta aðeins við það. Ég hef fulla trú á því að hv. atvinnuveganefnd þingsins taki það þannig.

Í þessari aðgerðaáætlun er t.d. komið inn á merkingar á matvælum — og ekki vanþörf á. Þær geta verið ansi villandi. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa hérna innihaldslýsingu á innfluttri matvöru. Svona er hún:

„Innihald: Villiblómahunang.“ Síðan kemur að upprunanum: Austur-Evrópa, Mið- og Suður-Ameríka og/eða ... [Hóstað í þingsal.].“

Og lífrænt vottað. Væntanlega hefur upprunavottorðið verið alveg afskaplega flókið. Ég trúi ekki öðru. Ég sé að menn brosa yfir þessu. En þetta er eiginlega ekkert fyndið. Hvað er verið að gera með þessu? Það er bara verið að blekkja neytendur, því miður. Þetta er allt of algengt, að menn blekkja neytendur. Þetta er bara eitt lítið dæmi. Við þekkjum alveg að það er til hópur á samfélagsmiðlum sem heitir „Villandi merkingar á matvælum“ þar sem er búið að líma yfir hitt og þetta. Ég hef fulla trú á íslenskum neytendum. Þeir vilja kaupa hágæða vöru og þeir vilja kaupa íslenska vöru. Þeir eru ekki fyrir að verið sé að klína einhverjum öðrum miðum ofan á vörur — sem koma erlendis frá, fullyrði ég.

Í þessari aðgerðaáætlun er t.d. komið inn á áhættumatsnefnd, sem ég held að sé ekki búið að skipa í. Það á að endurskoða matvælastefnu eða vinna hana og hún kemur til með að skila sér um næstu áramót. Þetta undirstrikar að við þurfum lengri tíma en til 1. september. Það er algjört lykilatriði.

Ég sagði hér fyrr í ræðu minni að ég hefði fulla trú á að við værum með þannig landbúnað að ef við erum með varnirnar í lagi og gerum kröfu til okkar sjálfra verði okkur allir vegir færir. Við skulum hugsa okkur það þannig að þangað getum við farið, þannig byggjum við sveitirnar. Við byggjum þær ekki upp með því að eyða tíma okkar hér í það að rífa niður með misvísandi málflutningi, því með þessu tel ég að við séum í betri málum. Ef við gerum þetta almennilega, bætum við þessum hlutum sem við vorum með áðan, verðum við með miklu öflugri varnir fyrir okkar búfjárstofna og til að verja lýðheilsu landsins en við erum með í dag þegar frystiskyldan er við lýði. Takk.