149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú seint talin standa vaktina fyrir Miðflokkinn, en það er rétt að ég stend vaktina fyrir samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar og samfélagsins og vil þakka hv. þingmanni fyrir skýra ræðu, hreinskiptna ræðu, þar sem hann lýsti mjög vel stöðunni nákvæmlega eins og hún er, að ástandið eins og það er í dag er ekki valkvætt. Þetta er ólögmætt ástand og stjórnvöldum ber einfaldlega skylda til að uppfylla þennan dóm. Það er ekki hægt að velja hvaða dómum EFTA-dómstólsins við förum eftir. Auðvitað eiga þá stjórnvöld að gæta að ýmsu og mér finnst hæstv. ráðherra hafa gert það vel, þetta er vandrataður vegur. Það er ósköp auðvelt fyrir mig í stjórnarandstöðu að koma hingað og segja: Hann gerir þetta ekki rétt, hann átti að gera þetta hinsegin. En ráðherra reynir að gæta annars vegar að heilnæmi í íslensku samfélagi. Hann gætir að íslenskri náttúru, íslenskum landbúnaði, um leið og hann uppfyllir okkar alþjóðlegu skuldbindingar, sem vel að merkja gríðarlegir hagsmunir hanga á, íslenskir hagsmunir, um að við uppfyllum áfram okkar skuldbindingar gagnvart EES-samningnum og þær skuldbindingar sem við höfum mjög opinskátt gengist undir, ríkisstjórnir síðustu 15, 20 ára.

Ég hef hlustað á allar ræðurnar í húsinu í dag frá skrifstofu minni hjá okkur í þingflokki Viðreisnar. Þær eru auðvitað prýðisgóðar. Efnislega er ég ekki sammála öllum þeirra. En það hefur komið í ljós að efasemdir eru á meðal stjórnarþingmanna, greinilegar efasemdir um að þetta mál fari með þessum hætti í gegnum þingið. Eðlilega taka alltaf mál einhverjum breytingum.

En ég vil spyrja hv. þingmann: Mun hann taka undir þann tón sem ég greindi áðan í ræðum nokkurra þingmanna ríkisstjórnarinnar, að fresta hugsanlega þessari gildistöku til að uppfylla aðgerðaáætlunina og nýta aðgerðaáætlunina (Forseti hringir.) til að reisa háar girðingar, m.a. til þess að erfiðara verði fyrir innflutningsaðila að flytja inn ferskt kjöt?

Ég vil spyrja hv. þingmann að þessum tveimur spurningum.