149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið er nei. Ég mun ekki taka undir það að fresta gildistöku nema einhvers konar samkomulag náist við þá úti í Evrópu um að það væri í lagi. Ég hef enga trú á að það náist. En ég mun ekki taka undir það að fresta gildistöku.

Nú man ekki seinni spurninguna, maður er orðinn svo fullorðinn. (Gripið fram í: … gegnum aðgerðaáætlun.) Mér finnst dómurinn mjög skýr. Reisa einhverjar girðingar til að komast hjá þessu? Þá erum við bara komin í önnur málaferli sem ég hef engan áhuga á. Ég hef bara áhuga á því að við förum eftir þeim samningum sem við höfum gert, förum eftir þeim reglum sem við höfum undirgengist og gerum það besta til að tryggja heilnæmar vörur á Íslandi, hvort sem við framleiðum þær sjálf eða aðrir flytji þær inn. Hafa eins miklar tryggingar og við getum sem gildir þá um allar vörur, hvort sem þær eru innlendar eða innfluttar, jafnt gildi um alla. Mikilvægt er að það sé heilbrigður markaður, heilbrigð samkeppni, en reglur sem tryggja heilnæmi. Í grófum dráttum er þetta bara svona.