149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

eigendastefna Isavia.

[15:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Isavia hefur mikla sérstöðu sem upphaf og endir alls í flugi hér á landi. Fyrirtækið starfar í samræmi við almenna eigendastefnu ríkisins frá því í ágúst 2012 og þar er lögð áhersla á skil ásættanlegrar afkomu og viðhald tekjumyndandi eigna frá fyrirtækjum í eigu ríkisins.

Ég veit að við hæstv. ráðherra erum sammála um að sú almenna stefna uppfyllir ekki kröfur eigendastefnu félags með jafn mikla sérstöðu og áhrif og Isavia hefur. Ég veit þetta vegna þess að ríkisstjórnin skrifaði í stjórnarsáttmála sinn að slík stefna yrði mótuð.

Fáir aðilar hafa tækifæri til að hafa jafn mikil áhrif á þróun ferðaþjónustu á Íslandi og Isavia. Félagið hefur verið mikið í fréttum undanfarið í kringum gjaldþrot og fall WOW en núna síðast í áskorun Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, til stjórnvalda. „Ísland er,“ sagði Ásthildur, með leyfi forseta, í nýrri grein sinni:

„eins og hús þar sem öllum er boðið að troðast inn og út um einar dyr.“

Í greininni kallar bæjarstjórinn eftir nauðsynlegri uppbyggingu flugvallarins á Akureyri sem alþjóðlegrar flugstöðvar sem taki á móti áætlunarflugi.

Og þá kem ég að spurningum mínum. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað hér við hæstv. ráðherra ferðamála um stöðu á mótun eigendastefnu ríkisins í flugumferðarmálum og tengsl við ferðaþjónustuna. Á opnum fundi atvinnuveganefndar í síðustu viku sagði ráðherra þá vinnu vera í gangi hjá fjármálaráðuneytinu og vísaði umræðunni þangað.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað líður vinnu við mótun eigendastefnu Isavia og hvenær má vænta niðurstöðu? Getur hæstv. ráðherra upplýst mig og þingheim um hvaða áhersluatriði þar eru lögð til grundvallar þeirri vinnu, umfram þá kröfu að skila ásættanlegri afkomu?