149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

jöfnun orkukostnaðar.

562. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað og ræða framvindu vinnu við jöfnun raforkukostnaðar í dreifbýli. Umræða um jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli hefur verið viðvarandi hér á Alþingi mjög lengi. Stundum hafa náðst ákveðin skref í rétta átt en svo vex munurinn aftur. Þetta er eins og með snigillinn sem skríður upp vegginn og sígur alltaf niður.

Staðan veldur viðvarandi óöryggi fyrir íbúa og atvinnurekstur í dreifbýli. Tvö fyrirtæki sjá um afhendingu orku í dreifbýli og eru með sérstaka dreifbýlisgjaldskrá, Rarik og Orkubú Vestfjarða. Um áramótin hækkaði verðskrá fyrir flutning og dreifikostnað raforku bæði í þéttbýli og dreifbýli en hækkunin á töxtum í þéttbýli var minni en sú í dreifbýlinu í prósentum talið. Þannig hækkar alltaf um fleiri krónur í dreifbýlinu.

Dæmi er um að dreifikostnaður raforku hjá grænmetisbónda í Eyjafirði hafi hækkað um tæp 60% á einu ári. Viðkomandi bóndi slökkti á raflýsingu og raforkufyrirtækið tapaði viðskiptum.

Skilgreining marka fyrir dreifbýlisgjaldskrár víða um land skiptir sköpum um hvort hægt sé að nýta heitt vatn sem næst uppsprettu til að framleiða grænmeti eða aðrar afurðir sem jafnframt krefjast raforkunotkunar. Það eru allt of mörg dæmi um atvinnurekstur í strjálbýlinu sem stendur höllum fæti í samkeppni vegna þess að fyrirtæki hafa lent utan línu sem dregin eru um þéttbýli á dreifingarkorti raforku. Tapið verður þá allra, raforkufyrirtækið tapar viðskiptum þegar fyrirtæki gefast upp, strjálbýlið tapar atvinnutækifærum og samfélagið tapar verðmætum þegar fjárfesting í raforkumannvirkjum nýtist ekki eins og lagt var upp með.

Þannig gæti þróunin orðið sú að hlutfallslega færri og færri standi undir kostnaðinum við uppbyggingu og viðhald dreifikerfisins. Kerfið étur sig upp innan frá, má segja.

Í núgildandi byggðaáætlun falla verkefnin undir þrjú yfirmarkmið: Að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Undir hvert markmið fellur fjöldi verkefna, þar á meðal verkefni sem stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

Hvernig miðar vinnu við jöfnun orkukostnaðar samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024?

Stendur til að jafna orkukostnað að fullu? Ef svo er, hvaða leiðir sér ráðherrann til þess?

Er sambærileg markmið að finna í annarri stefnumótun stjórnvalda?

Er stuðningur við uppsetningu (Forseti hringir.) á varmadælu á köldum svæðum bundin við heimili?