149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mér finnst hins vegar ekkert skrýtið að mál snerti strengi í hjörtum landsmanna þegar kemur að orkunni okkar og orkuauðlindunum. Mér finnast það bara mjög eðlileg viðbrögð að fólk sé á varðbergi og vilji fylgjast vel með því máli og spyrja gagnrýninna spurninga. Ég geri engar athugasemdir við það, ekki nokkra einustu. Það er okkar skylda að reyna að útskýra það eins og kostur er hvað hér er á ferðinni.

Hv. þingmaður spyr varðandi helstu kostina, og við getum kannski rætt þá betur hér á eftir. Mér finnst gott að geta valið sjálfur fleiri en einn aðila þegar ég á í viðskiptum. Ég get ekki séð neitt að því. Þvert á móti finnst mér það bara gott og það er nokkuð sem við fengum í gegnum þessa orkupakka. Þarna er líka ákveðið gagnsæi sem ekki var til staðar áður. Ég næ ekki að klára á þessari mínútu að fara yfir þessi mál öll saman, en ég hef einhverja fortíð þegar kemur að orkumálum og hef nokkrar skoðanir á þeim.