149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki mörgu við þetta að bæta. Ég vona hins vegar að þessi umræða verði löng og vona að margir taki þátt í henni. (Gripið fram í.) — Já, ég vona það, hv. þm. Inga Sæland, að þessi umræða verði löng og ég vona að sem flestir komi hingað upp og taki þátt í henni. Ég vona að þeir sem fylgjast með umræðunni verði þá upplýstari um hvað hér er á ferðinni. Því að eins og hv. þingmaður nefnir réttilega, sem er algerlega í samræmi við niðurstöður allra fræðimanna, höfum við full yfirráð yfir auðlindum okkar, hvort sem við afgreiðum þetta mál hér eins og lagt er upp með eða ekki. Það er afskaplega mikilvægt að það liggi alveg skýrt fyrir. Hér er ekki verið að samþykkja neitt sem gerir það að verkum að einkavæða þurfi einhverja hluti, hvað þá að það þurfi að leggja sæstreng. Það er ábyrgðarhluti að fara fram með rangar fullyrðingar í öllum málum, en sérstaklega í málum eins og þessum.