149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að koma hingað upp vegna þess að þannig er mál með vexti, eins og hæstv. utanríkisráðherra veit sjálfur, að hann er oft í burtu í opinberum erindagjörðum og nýtur vegna þess, held ég, fulls skilnings af hálfu allra þeirra sem sitja í þessum sal.

Nú bregður svo við að einn af hörðustu andstæðingum málsins sem mælt er fyrir í dag er staddur á vegum Alþingis erlendis — og hæstv. utanríkisráðherra gerir það að sérstöku umræðuefni hér.

Ég veit ekki alveg hvað vakir fyrir ráðherranum. Vill hann að umræðunni verði frestað þangað til viðkomandi hv. þingmaður snýr aftur til starfa? Það er okkur ljúft. Eða hvaða dylgjur eru þetta sem hæstv. utanríkisráðherra kemur með hingað inn í þennan sal í þessa umræðu? Þetta er til skammar. Þetta er honum til minnkunar. Ég myndi kjósa að hann tæki þetta aftur — að gera það eitthvað tortryggilegt að þingmenn almennt, því það er ekki bara einn þingmaður, séu á ferðalagi erlendis (Forseti hringir.) á vegum Alþingis.

Það er kannski bara tilviljun að þessi umræða á sér akkúrat stað núna (Forseti hringir.) meðan viðkomandi er erlendis staddur? Eða er eitthvað (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) slíkt í gangi?