149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:29]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ræðuna. Ég verð hins vegar að klóra mér aðeins í hausnum. Hann vitnaði hér ítrekað í álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar en lætur hjá líða að minnast á að þeir benda á að möguleg lausn á því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur, að aflétt verði stjórnskipulegum fyrirvara, sé með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans við grunnvirki yfir landamæri öðlist ekki gildi. Og það er nákvæmlega það sem við erum að gera.

Þannig að ég spyr hv. þingmann: Er hann ósammála álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar þegar þeir komast að þeirri niðurstöðu og beina þinginu inn á þessa braut sem mögulegri lausn? Svo vil ég spyrja líka: Með hvaða hætti og hvar í þriðja orkupakkanum er Ísland að undirgangast einhverjar þjóðréttarlegar skuldbindingar, eins og mér virðist þingmaðurinn telja, er viðkemur lagningu sæstrengs? Ég hef óskað eftir því að þingmaðurinn upplýsi um það vegna þess að það er mjög mikilvægt að við í þessum sal gerum okkur grein fyrir því hvar í þriðja orkupakkanum, í tilskipuninni, eru þjóðréttarlegar skuldbindingar á hendur íslenskum stjórnvöldum og íslenskum almenningi að leggja sæstreng.

Það er mjög mikilvægt að þingmaðurinn bendi okkur á með skýrum og afgerandi hætti hvar þessi skuldbinding er í þessum atriðum. Svo er auðvitað spurning: Hvað er það að öðru leyti í orkupakkanum sem hv. þingmaður er ósáttur við? Er hann ósáttur við aukið sjálfstæði Orkustofnunar? Er hann ósáttur við aukna neytendavernd? Hvað er það fyrir utan þessa þjóðréttarlegu skuldbindingu sem ég á eftir að finna?