149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þar sem fyrir liggur í málinu er greinargerð upp á rúmar 40 síður frá mjög virtum höfundum. Ég hef bent á að það liggja varnaðarorð sem rauður þráður í gegnum þessar 40 síður. Það er mjög ítarleg umfjöllun á stjórnskipulegum grundvelli. Og þeir gera meira. Þeir fara djúpt ofan í efni málsins þannig að það er ekki bara, svo maður sletti latínu hérna, litið á málið de jure, heldur líka de facto.

Hv. þm. Óli Björn Kárason þarf ekki að spyrja út í neinn sæstreng því að ég sagði ekkert um að við öxluðum þjóðréttarlega skuldbindingu varðandi einhver sæstreng. Það kom ekki neitt slíkt fram í máli mínu þannig að ég þarf ekki að svara neinu um það. Hitt er annað að það er mjög ítarleg umfjöllun hjá Stefáni Má Stefánssyni og Friðrik Árna Friðrikssyni Hirst um reglugerð 713 og einkanlega 8. gr. hennar. Þeir víkja í styttra máli að reglugerð 714 en segja að svipuð stjórnskipuleg álitaefni kunni að rísa tengd henni.

Þeir vísa í áðurnefndan d-lið 37. gr. í tilskipun 72. Eftir að hafa lesið það, sem ég geri ráð fyrir að menn hafi almennt gert hér, þá er þetta hið efnislega inntak í því framsali á ríkisvaldi sem hér er um að ræða og þær efasemdir sem þeir lýsa sem þeir kalla alvarlegar. Þeir segja að þær séu alvarlegar. Það hlýtur auðvitað að gefa tilefni til þess að spurt sé að því, eins og ég hef reynt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar er rökstuðningurinn fyrir því að sú leið sem valin er sé fullnægjandi?