149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég er ágætlega klæddur í þessari umræðu, meira að segja með bindi, og fjarri því að ég standi hér allsnakinn að rökum né öðru.

En af því að hv. þingmaður talar um rörsýn okkar í Viðreisn — mér finnst það mjög skemmtileg nálgun — þá má segja með sama hætti að flokkur hv. þingmanns ástundi það sem mætti kalla frekar heimsýn en heimssýn, þ.e. að horfa alltaf heim að bæ en ekki út til umheimsins.

Ég er mjög hlynntur alþjóðasamskiptum okkar á alla vegu, bæði við Evrópusambandið, innan EES-samstarfsins en ekki síður við Asíu, Bandaríkin o.s.frv. Við eigum ekki að útiloka neina möguleika í því, en við eigum gríðarlega viðskiptahagsmuni undir í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið. Það er langstærsta útflutningssvæðið okkar, bæði hvað varðar vörur og þjónustu í dag. Það skiptir okkur því gríðarlega miklu máli að sinna skyldum okkar, gæta hagsmuna okkar og gæta þess að nýta okkur þau tækifæri sem þetta samstarf getur skapað okkur og er alltaf að skapa okkur á hverjum degi.

Hv. þingmaður vísaði til umræðunnar um kjötinnflutning. Það er bara grundvallarmunur þar á. Þar höfðum við gert samning sem felur í sér skuldbindingu um tollkvóta og innflutning á fersku kjöti. Við höfðum opnað með pósitífum hætti á innflutning á fersku kjöti og verið var að skikka okkur til að virða ákvæði þeirra samninga sem við höfðum gert sem frjáls og fullvalda þjóð. Við höfum ekki gert neina samninga um tengingu raforkuvirkja okkar við evrópska markaðinn. Hér er sagt með skýrum hætti: Slíkt verður ekki gert nema með pósitífu samþykki Alþingis. Þar af leiðandi hef ég engar áhyggjur af þessu máli.