149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:26]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Það mætti halda að hv. þingmaður væri skyggn vegna þess að hann talar eins og við séum að leggja sæstreng á morgun, og þar með hækki raforkuverð á Íslandi. Það getur vel verið, eins og við höfum svo oft sagt áður, það er ekkert Alþingi og það er engin ríkisstjórn sem getur tryggt að hér verði ekki lagður sæstrengur eftir 10, 15, 20 eða 30 eða 50 ár, þá gerist auðvitað eitt og annað. En við erum ekki að ræða það. Og talandi um hræðsluáróður. Þetta er hræðsluáróður, að láta eins og þetta sé yfirvofandi. Það er ekki yfirvofandi.

Varðandi niðurgreiðslu á rafmagni. Við vorum að tala um flutningsjöfnun rétt áðan, sem er ekki bönnuð. Og hafi stjórnvöld brugðist vegna þess að þarna voru köld svæði sem allt í einu stóðu frammi fyrir hækkandi rafmagnsreikningum myndi ég einfaldlega segja að það væri gaman að vita af hverju þau brugðust sínu hlutverki, vegna þess að flutningsjöfnun, niðurgreiðslur, hvað við köllum þetta, er auðvitað heimil með einhverjum aðferðum. Brussel bannar það ekki. Í mörgum löndum, við skulum segja í Finnlandi þar sem meira eða minna öll húshitun fer fram með rafmagni, skal enginn segja mér að það sé ekki hægt að hygla þeim sem búa fjarri meginstofnleiðum eða öðru slíku. Ég vísa þessum hræðsluáróðri á bug.