149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég verð bara að spyrja hana hvort hún telji að það muni ekki hafa neinar afleiðingar ef við virkjum 103. gr. EES-samningsins, eins og hv. þingmenn Miðflokksins hafa í rauninni verið er að leggja til hér, þ.e. að við hyggjumst ekki aflétta þessum stjórnskipulega fyrirvara. Hvað telur þingmaðurinn að gerist þá yfir höfuð næst í þessu ferli, af því að það hefur ekki verið virkjað? Er það skynsamlegt? Af því að fyrir 25 árum sömdu sjö EFTA-ríki við 12 ríki ESB um þennan samning.

Telur hv. þingmaður að skynsamlegt sé að segja honum upp og semja upp á nýtt við 28 ríki um þetta, þá án IV. viðauka, þ.e. raforkulaganna? Eða hvaða leið eigum við að fara?

Einn maður hefur fengið svolítið mikla umfjöllun, þ.e. Stefán Már Stefánsson. Hann kom á fund þingflokks Vinstri grænna. Hann sagði okkur að þessir fyrirvarar héldu sem væru á málinu eins og það er núna.

Ég spyr hv. þingmann: Hefur hún talað persónulega við Stefán Má Stefánsson eða haft tækifæri til þess að spyrja hann nákvæmlega út í þær áhyggjur sem Miðflokkurinn hefur?