149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki klár á nákvæmlega hvernig skjalastjórnunin er í þessum efnum. Ég vísa hins vegar til þess að fylgiskjal 16 sem hægt er að finna á heimasíðu Alþingis fjallar um sameiginlegan skilning á gildi þriðja orkupakkans. Og svo er um að ræða fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu um það efni. Það sem skiptir máli er auðvitað að málið er núna að koma til meðferðar hér á Alþingi. Þar gefst færi á að spyrja fræðimenn og aðra sérfræðinga á þessu sviði út í það nákvæmlega hvað þeir eru að fara með sínum álitum.

Það liggur fyrir að sú leið sem hér er valin er í samræmi við eina tillögu sem kom m.a. frá Stefáni Má Stefánssyni og Friðrik Árna Friðrikssyni Hirst. Þeir geta þá svarað því fyrir þingnefnd hvort þeir standi ekki við þá niðurstöðu sína að (Forseti hringir.) þetta sé tæk leið.

En ég vek athygli á því að þeir voru þeir lögfræðingar sem um málið fjölluðu sem höfðu mestar áhyggjur af stjórnskipulega þættinum meðan allir aðrir fræðimenn sem um þetta fjölluðu og fengu til þess tækifæri voru miklu áhyggjulausari, ef svo má segja, um þetta efni.

(Forseti (BHar): Forseti vill hvetja hv. þingmenn til að virða tímamörk.)