149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Nýlega voru nokkrir þættir á dagskrá Ríkisútvarpsins sem báru heitið Kverkatak þar sem fjallað var um heimilisofbeldi og afleiðingar þess. Þetta eru afar áhrifamiklir þættir sem ég hvet alla hv. þingmenn til að hlusta á. Þar var m.a. rætt við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi, þá erfiðu lífsreynslu sem fylgir því og langvarandi áhrif á líf þeirra sem fyrir verða.

Þar kemur fram að hægara er sagt en gert að losna úr slíku ofbeldissambandi. Sem betur fer hefur lögreglan tekið upp nýtt verklag við afskipti sín af slíku ofbeldi og tekst á við það af mikilli fagmennsku — og er það vel.

Hitt er að enn er að mestu óplægður akur að takast á við eftirmála þess að ofbeldissambandi lýkur. Þar er mikið verk óunnið og lýtur ekki síst að því að endurskoða reglur um forræði barna og umgengnisrétt þess sem hefur beitt ofbeldi. Þá er sömuleiðis pottur brotinn í kerfinu þegar kemur að frágangi lögskilnaðar og eignaskiptum.

Því miður er það þannig að oft lýkur ofbeldi, líkamlegu en þó aðallega andlegu, ekki við það að fólk býr ekki lengur saman. Sá sem ofbeldinu hefur beitt heldur því áfram með þeim aðferðum sem tiltækar eru, svo sem með þrætum um forræði og umgengni við börn, hann berst gegn lögskilnaði og tefur búskipti. Þannig viðheldur hann ofbeldi sínu og tökum á lífi þess sem var þolandinn í ofbeldissambandinu.

Herra forseti. Það er undarlegt að hjúskaparbrot er skilnaðarástæða en ekki ofbeldi. Hvernig má það vera að sá sem beitir ofbeldi geti tafið lögskilnað? Nú segir um ósamlyndi og samvistarslit(Forseti hringir.) í hjúskaparlögum:

„Nú hafa hjón slitið samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.“

Þetta er hróplegt ósamræmi og óréttlæti. Þetta verðum við að laga.