149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar aukast heildarframlög hins opinbera til heilbrigðismála jafnt og þétt á gildistíma áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að árleg framlög til málaflokksins verði árið 2024 um 28 milljörðum kr. hærri en þau eru í dag. Það samsvarar um 11% raunaukningar á tímabilinu.

Strax á næsta ári eykst hlutdeild ríkisins í kostnaði sjúklinga um 300 milljónir. Næstu fjögur ár eykur ríkið hlutdeild sína um 800 millj. kr. ár hvert. Aukin framlög ríkisins til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu nema á tímabilinu um 9 milljörðum kr. Stefnt er að því að greiðsluþátttaka sjúklinga hér á landi verði því sambærileg og gerist hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Stórauknum fjármunum verður líka varið til að lækka greiðslubyrði sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og þar er áherslan m.a. á að efla heilbrigðisþjónustu við aldraða og öryrkja. Áfram er haldið að vinna á svokölluðum biðlistaaðgerðum, liðskiptaaðgerðum, augnsteinaaðgerðum. Tilteknar kvensjúkdómaaðgerðir og brennsluaðgerðir vegna gáttatifs eru í forgangi og til þess eru ætlaðar 840 millj. kr., til að stytta bið þessara sjúklinga eftir þeim mikilvægu aðgerðum.

Þar er um að ræða 570 liðskiptaaðgerðir umfram þann aðgerðafjölda sem hefði verið sinnt án sérstaks fjárframlags. Af þeim verða gerðar 250 á Landspítalanum, annað eins á sjúkrahúsinu á Akureyri og um 70 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Til samanburðar voru gerðar 523 í liðskiptaaðgerðaátakinu á síðasta ári. Augnsteinaaðgerðirnar verða 1.300 fleiri en ella og um 140 fleiri aðgerðir á grindarbotnslíffærum kvenna. Áfram verður geðheilbrigðisþjónustan efld, eins og ég sagði, og á þessu ári hefur 650 millj. kr. nú þegar verið ráðstafað til hennar. Áfram verður haldið á næstu árum og nema aukin framlög til að efla geðheilbrigðisþjónustuna 100 milljónum á ári, ár hvert fram til 2024. (Forseti hringir.)

Þetta er ríkisstjórn og þetta er heilbrigðisráðherra sem láta verkin tala.