149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Á 7. áratug síðustu aldar réðust Íslendingar í umfangsmiklar framkvæmdir á sviði raforku. Þjóðin fjárfesti í virkjunum og dreifikerfi sem kostaði mikla fjármuni til að tryggja landsmönnum raforku til heimila og innlendra fyrirtækja, en einnig til að laða að erlenda fjárfestingu til að skapa íslensk störf til framtíðar. Það var ljóst að fjárfestingin myndi ekki skila arði strax á þeim tímapunkti heldur í framtíðinni, sem er núna. Landsvirkjun var stofnuð til að halda utan um þessa þjóðarfjárfestingu og virkjanirnar okkar skila nú arði sem nemur um 1,5 milljörðum kr. á ári, samkvæmt forstjóra fyrirtækisins, og gæti fyrirtækið hæglega greitt 110 milljarða kr. til eigandans á árunum 2020–2026. Slíka fjármuni er hægt að nýta til að greiða niður skuldir ríkisins, lækka skatta eða til að fjárfesta í innviðum sem sannarlega er ekki vanþörf á.

En því er ég að minnast á þetta? Jú, vegna þess að með innleiðingu þriðja orkupakkans mun fylgja áskilnaður um eignarhald á orkufyrirtækjum, fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, og líklegt má telja að krafan verði að fyrirtækinu verði skipt upp í smærri einingar og markaðsvætt. Upp frá því mun arðurinn af orkulindinni okkar renna til einkaaðila, innlendra eða erlendra eftir atvikum, en ekki endilega til framtíðarkynslóða landsins.

Þjóðin á um þessar mundir á milli 80 og 90% af virkjunum landsins sem framleiða hreina orku, vistvæna orku, sem er gríðarleg eftirspurn eftir. Hér er mikilvægt að gera sér grein fyrir sérstöðu okkar Íslendinga. Við Íslendingar erum jú neytendur raforkunnar sem við framleiðum og við eigum auðlindina. Við förum með yfirráð yfir henni. Þessu er öfugt farið víðast annars staðar í Evrópu. Þar eru raforkuverin í einkaeign og langstærstur hluti þeirra framleiðir ekki það sem við köllum hreina orku heldur er mestur hluti raforkunnar framleiddur með öðrum hætti, til að mynda kolabruna, kjarnorku eða olíu. Á Íslandi er afhending raforku stöðug. Verð á raforku er stöðugt og lágt í samanburði við önnur Evrópulönd. Við getum framleitt meiri hreina orku en við gerum nú og það getur laðað að erlenda fjárfestingu. Það myndi gefa af sér vel launuð störf og virðisauki framleiðslunnar myndi skila sér hér á landi. Við erum öfundsverð af þessari stöðu og þó að ég sé fylgjandi ábyrgri nýtingu á náttúruauðlindum er í því samhengi mikilvægt að gefa gaum að íslenskri náttúru sem óneitanlega verður fyrir raski við virkjunarframkvæmdir.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu er þess beiðst af Alþingi að það samþykki heimild til ráðherra og ríkisstjórnarinnar að innleiða þriðja orkupakkann. Samþykki með öðrum orðum framsal ríkisins til stofnunar Evrópusambandsins, allt í nafni jöfnuðar og neytendaverndar í Evrópu, en ekki á Íslandi. Eða hvað er það í orkupakka þrjú sem er svona eftirsóknarvert fyrir okkur Íslendinga? Erum við að tryggja Íslendingum og fyrirtækjum staðsettum á Íslandi hreina og stöðuga raforku á góðu verði? Erum við að tryggja frekar yfirráð okkar yfir auðlindinni? Erum við að tryggja komandi kynslóðum arðinn af auðlindinni og góð lífskjör? Eða er það eitthvað annað? Eru einhverjir aðrir hagsmunir fyrir þjóðina sem ég kem ekki auga á? Það kann að vera að það sé svo. En kann að vera að það sé verið að tryggja einhverjum öðrum en þjóðinni hagsmuni og ítök til langrar framtíðar sem muni gefa sér góðan arð á kostnað okkar Íslendinga? Getur verið að það sé verið að tryggja samkeppnishæfni iðnfyrirtækja í Mið-Evrópu með auknu hlutfalli grænnar orku? Getur verið að það sé verið að tryggja með salamí-aðferðinni að við afhendum sneið fyrir sneið sjálfræði og yfirráð til Brussel þar til við erum, gegn vilja þjóðarinnar, komin svo langt að við getum allt eins gengið í Evrópusambandið? Eða eru þessar spurningar mínar alla bara rugl og vitleysa? Er þetta eitthvað sem ber vott um andlega fátækt og örbirgð pólitískra popúlista? Eða er hitt líklegra að kannski sé því öfugt farið og að popúlisminn sé hinna sem fastast róa í átt til Brussel?

Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, eiga því ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu.“

Er ekki verið að byrja á vitlausum enda hér, herra forseti? Það á sem sagt að innleiða reglugerðir í íslenskan rétt og athuga svo hvort þau standist stjórnarskrána. Mig langar að minna hv. þingmenn á drengskaparheit þeirra sem lýtur að stjórnarskránni. Þessi vinnubrögð sem hér er boðið upp á eru að mínu áliti í besta falli athugaverð. Sagan segir okkur að einhliða lagalegir fyrirvarar eru lítils eða einskis virði gagnvart EES eins og nýleg dæmi sanna. Þessu til fyllingar má nefna hvað kemur fram í áliti títtnefndra Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, með leyfi forseta:

„Í álitsgerðinni kemur fram að verði 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 713/2009 tekin upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd muni reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda. Verður ESA þá falið vald til að taka ákvarðanir sem munu binda íslensk stjórnvöld að landsrétti og munu um leið varða mikilsverða hagsmuni raforkufyrirtækja og notenda raforkukerfisins beint og óbeint. Samstarfsstofnunin myndi einnig hafa „umtalsverð áhrif“ á efni ákvarðana ESA. Í ljósi eðlis og inntaks valdframsals til ESA, sem felst í 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 713/2990, telja höfundar álitsgerðarinnar „vafa undirorpið hvort valdframsalið gangi lengra en rúmist innan ákvæða stjórnarskrárinnar …““

Vafa undirorpið. Er það ekki akkúrat málið? Hefur það ekki verið málflutningur ráðherra hér að það sé einmitt verið að gyrða sig í brók með belti og axlabönd? Við erum að fara öruggu leiðina. Við erum að fara eins varlega og hægt er. Og við gerum það með hverju? Með því að setja fyrirvara ofan á fyrirvara ofan á fyrirvara, sem við vonum að haldi en höfum enga vissu fyrir. Það er áhugavert.

Hæstv. ráðherra vill liðveislu Alþingis til að innleiða orkupakka þrjú með viðeigandi reglugerðum en hafna um leið hluta hans með ónýtum fyrirvörum og fara lakari eða tvísýnni leið en þörf er á.

Að sjálfsögðu viljum við Íslendingar vera þjóð á meðal þjóða. Auðvitað viljum við taka þátt í alþjóðasamningum og viðskiptum þjóða í millum og það hefur verið einhugur um það meðal okkar frá upphafi. En það er tiltölulega nýtilkomið að við viljum framselja sjálfstæði og sjálfræði þjóðarinnar, auðlindirnar okkar og komandi kynslóða. Eða til hvers er þá unnið? Hefur einhverjum dottið í hug að framselja yfirráð okkar yfir fiskimiðunum eða nýtingu fiskstofnanna, innleiða slíkt í íslenskan rétt og athuga svo hvort það stæðist stjórnarskrána? Nei, auðvitað ekki. Slíkt dytti engum í hug.

En hvers vegna er þessi þingsályktunartillaga komin fram? Af hverju höfnum við ekki orkupakka þrjú og sendum málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem við höfum tækifæri á að búa svo um hnútana að það káfi ekki upp á okkur, káfi ekki upp á yfirráð okkar yfir auðlindinni? Og hvers vegna vill ríkisstjórnin í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar, í andstöðu við grasrót sína, fara þessa leið? Ég hef ekki svör við því en þætti vænt um að fá þau.

Í áliti títtnefndra lögspekinga, Stefáns Más og Friðriks Árna, segir:

„EES-samstarfið byggist á þeirri forsendu að EES/EFTA-ríkin innleiði löggjöf Evrópusambandsins í landsrétt sinn á þeim sviðum sem EES-samningurinn tekur til, hvort heldur óbreytta eða með aðlögunum m.a. með hliðsjón af forsendum EES-samningsins og sérstöðu hvers ríkis um sig. Í því ljósi virðist nærtækt að Ísland leiti lausna sem eru fólgnar í því að aðlaga ákvæði þriðja orkupakkans þannig að þau fái samrýmst þeim takmörkunum sem stjórnarskráin setur framsali ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana líkt og ESA. Um slíkar lausnir þyrfti þá að semja á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við málsmeðferð samkvæmt 102. gr. EES-samningsins. Ein möguleg lausn gæti falist í því að Ísland fari fram á undanþágur frá reglugerðum nr. 713/2009 og 714/2009 í heild, m.a. á þeirri forsendu að hér á landi fari ekki fram raforkuviðskipti milli landa, og eigi fyrrgreindar reglugerðir því ekki við um aðstæður hér á landi. Kosturinn við þessa aðferð er að hún er tiltölulega einföld í framkvæmd og mætti segja að EES/EFTA-ríkin töluðu einum rómi ef slíkar undanþágur fyrir Ísland yrðu samþykktar.“

Önnur lausn sem rætt er um í sömu greinargerð er sú leið sem valið er að fara, önnur lausnin. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Önnur lausn gæti falist í því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt en með lagalegum fyrirvara um að ákvæði hans um grunnvirki yfir landamæri, t.d. 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, öðlist ekki gildi, enda er slíkum grunnvirkjum ekki fyrir að fara hér á landi. Grunnforsenda þessarar lausnar væri þá sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri, heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands. Ef Ísland tæki ákvörðun um að leggja grunnvirki yfir landamæri, yrðu ákvæði þriðja orkupakkans um grunnvirki yfir landamæri tekin að nýju til skoðunar og þá m.a. með tilliti til þess hvort þau samrýmist stjórnarskránni. Þessi lausn er þó ekki gallalaus.“

Við veljum lausnina, sem er gölluð, en höfnum hinni.

Í ríkisstjórninni virðist vera pólitísk samstaða um að gera fyrirvara við innleiðinguna á orkupakkanum, sem segir kannski meira en mörg orð. Kannski eru menn ekki sáttir. Ég er sammála ríkisstjórninni í því að auðlindirnar okkar og framtíðarkynslóðir eigi að njóta vafans. Ég legg því til að hæstv. ráðherra endurskoði afstöðu sína, taki málið af dagskrá, eða endurskoði innleiðingu á orkupakka þrjú.