149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég ætla bara að byrja á því að svara því: Auðvitað eru þeir ekki lýðskrumarar og hafa ekki hagsmuni af öðru en að fjalla fræðilega málið. En það skiptir líka máli, þegar vitnað er í fræðimenn, að fara rétt með og á endanum voru það fjórir fræðimenn sem komust að því að í þessu fælist engin hætta. Og þeir tveir sem hv. þingmanni þóknaðist að vitna í, segja, þegar búið er að klæða málið í endanlegan búning, með leyfi forseta:

„Með þessari leið er stjórnskipunarvandinn settur til hliðar að sinni og reglugerðin innleidd á þeim forsendum að þau ákvæði hennar sem fjalla um flutning raforku yfir landamæri eigi ekki við hér á landi og hafi því ekki raunhæfa þýðingu. Það þýðir í raun að gildistaka þeirra er háð tilteknum frestsskilyrðum. Grunnforsenda þessarar lausnar er sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands.“

Svo mörg voru þeirra orð. Það verður að skoða niðurstöðu orðanna en ekki bara taka samhengislaust úr álitsgerðunum sjálfum.

Hv. þingmaður talaði líka um að ræða mín hafi haft ákveðið skemmtigildi. Það er gott þó að hann hafi nú væntanlega notað það í niðrandi merkingu. Ég fjallaði vissulega um annað en orkupakkann. Ég talaði þó um þau grundvallaratriði sem skipta máli, það er eignarhaldið og hverjir halda á íslenskum orkufyrirtækjum. En hann talaði líka um að ræðan hafi verið innihaldsrýr. Við því get ég svo sem lítið gert og biðst afsökunar á því að geta ekki haldið jafn innihaldsríkar ræður og þingmenn Miðflokksins hafa gert í síðustu tvö skiptin sem þeir hafa staðið hér í málþófi.