149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og það er ágætt að fá hans útlistun á þessu. Ég skil hann svo að engin slík hagfræðileg greinargerð liggi fyrir í málinu svo honum sé a.m.k. kunnugt um, ekki frekar en mér.

Ég gat um það að margir hafa mikinn metnað til að viðhafa vönduð og fagleg vinnubrögð og hv. þingmaður er náttúrlega á meðal þeirra. Við erum í þeirri aðstöðu að við erum með mjög ítarlegt álit um stjórnskipuleg álitamál. Þær spurningar sem við stöndum frammi fyrir núna er m.a. þessi: Dugir þessi lagalegi fyrirvari til að vega upp á móti þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við erum í þann veginn að fara að axla með því að fella niður hinn stjórnskipulega fyrirvara, með samþykkt þessarar þingsályktunar? Dugir hann? Hefur hann þjóðréttarlegt afl á móti þeirri skuldbindingu sem við erum að axla með því að innleiða reglugerðir 713 og 714 og 37. gr. í tilskipun nr. 72, allar frá árinu 2009?