149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:48]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þingmaður vitnaði í norskan lagaprófessor er rétt að ég geri það líka. Henrik Björneby vann greinargerð um þriðja orkupakkann og hvaða áhrif hann hefði á EES-löndin. Hann komst að því að ekki er með neinum hætti verið að hafa áhrif á það hvaða stjórnvöld taka ákvörðun um sæstreng, í þessu eru tilfelli íslensk stjórnvöld að gera það. Hann segir líka að ACER, eða ESA í okkar tilfelli, hafi ekki vald til að taka ákvörðun um mál sem tengjast mati yfirvalda viðkomandi lands um að veita skuli heimild fyrir millilandatengingu.

Það sem þessi norski lagaprófessor kemst að er svipað því sem flestallir sem hafa lagt okkur lið, langflestir lagaspekingar okkar, hafa komist að. Meira að segja Stefán Már Stefánsson telur að þetta mál, eins og um það er búið núna frá hendi ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanríkisráðherra, sé með þeim hætti að okkur sé óhætt út frá stjórnarskránni að samþykkja það. Þetta er svo einfalt. (ÞorS: Bera af mér sakir.)