149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:46]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem aðallega til að tilkynna hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að ég mun gera nánar grein fyrir því í ræðu á eftir, þegar að því kemur, að þriðji orkupakkinn eða framsetning hans gagnvart Íslendingum, sem landsfundur Sjálfstæðismanna hafnaði og hv. þingmaður las upp úr þeirri samþykkt, er ekki í dag sá orkupakki sem þá var hafnað. Þetta mun ég fara yfir með hv. þingmanni á eftir. Það er m.a. ástæðan fyrir því ég hefði hafnað þeim orkupakka eins og hann stóð, eins og hann lá fyrir síðast í haust. Ég hef svo sem ekki skipt um skoðun á því en pakkinn sjálfur hefur breyst. Það mun ég útskýra á eftir.

Ég heyrði í hv. þingmanni í Kastljósi í gærkvöldi þar sem hann boðaði að hann myndi jafnvel koma með óvænt tíðindi eða þætti inn í ræðu sína hér í dag en ekki hefur margt komið mér á óvart.

En ég vil enn biðja hv. þingmann, og á það eiginlega við alla hv. þingmenn Miðflokksins sem koma hér, að útskýra fyrir mér hvað það er í þessu þingmáli utanríkisráðherra sem gerir það að verkum að þeirra mati að við séum að afsala okkur forræði yfir náttúruauðlindum á Íslandi Ég hef sagt áður að það er talsvert í húfi fyrir þá því að ef þeir geta bent mér á þetta, ef hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson getur bent mér á hvar í þingmáli utanríkisráðherra felst afsal á forræði Íslendinga yfir auðlindum sínum skal ég koma í nei-hópinn með þeim. Það er til nokkurs að vinna.