149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn. Það var lenska á Íslandi í den að segja alltaf: Það eru allt aðrar aðstæður á Íslandi. Það var alveg sama hvar var gripið niður, ekki voru sömu aðstæður á Íslandi og annars staðar. Málið er hins vegar mjög einfalt. Þar segir að 7., 8. og 9. gr. reglugerðar 713/2009 feli í sér valdframsal. Þess vegna höfnum við þessum orkupakka. Við tökum upp samningaviðræður um 7., 8. og 9. gr. reglugerðar 713/2009, gerum málið betra. Ég fagna því ef hv. þingmaður vill koma með okkur í þá vegferð og bind vonir við það vegna þess að það er skynsamlegasta afstaðan. Við höfum tekið upp allar EES-gerðir og það breytist ekki neitt núna. Við bara tökum þessa upp á okkar forsendum en ekki forsendum Brussel, sá er munurinn.