149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:20]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið mér þau orð í munn um málflutning hv. þingmanna Miðflokksins að tala hér um lýðskrum og þaðan af síður um þvælu. Ég er einfaldlega að reyna að ræða þetta mál málefnalega.

Það kann að vera og auðvitað er það alltaf hugsanlegt að einhver höfði mál út af einhverju. Ég get ekki svarað því. Af hverju höfum við, bæði sá sem hér stendur og hv. þingmenn sem eru á annarri skoðun, vitnað mest í Stefán Má Stefánsson? Það hef ég gert vegna þess að hann hefur gengið lengst í þessum efnum. Allir hinir sem hafa verið kallaðir til álits á þessu máli hafa gengið skemur og talið þetta eiginlega miklu meira í lagi en Stefán Már Stefánsson hefur gerst. Þess vegna höfum við öll hér í þessum sal í dag og í gær vitnað mikið til Stefáns vegna þess að hann hefur gengið lengst. Ég hef talið mér eiginlega öruggast í þessu máli, eða þeim þætti málsins sem lýtur að því hvort um sé að ræða valdframsal eða ekki sem stangaðist á við stjórnarskrá, að styðjast við hann af þeirri ástæðu sem ég lýsti, að hann hefur gengið lengst í þessu. Og þar til núna og þar til kemur einmitt að bls. 43 og 44, og síðan áliti Stefáns eins og hann lýsir því eftir að þingmálið lá fyrir, þá fyndist mér nær af hálfu þingmanna Miðflokksins sem hér hafa talað, eins og ég geri sjálfur; höldum áfram að styðjast við álit þeirra fræðimanna sem lengst vilja ganga í að vernda stjórnarskrá.