149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:48]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kyndugt að hlusta á hv. þingmann kvarta yfir því að ég sé að ræða eitthvað annað en það sem er núna akkúrat undir, vegna þess að hann gerði nákvæmlega það í allan dag. Það var rætt um allt þetta orkumál í þaula í dag, öll fjögur málin sem hér eru undir. Ég sagði að ég væri að endurtaka aðalatriðin til að þau væru skýr að mínu mati. Það eru engin fórnarlömb í þessari umræðu.

Það var spurt um raforkubændur. Nú vill svo til að ég sökkti mér ofan í raforkuframleiðslumál í Rúmeníu, sem eru u.þ.b. 6.000 MW. Þar er gríðarlegur fjöldi smávirkjana og þeim hefur farið fjölgandi. Það er undir hatti ACER. Og auðvitað er ACER ekki að hlutast til um raforkuframleiðslu í landi. Það er eftirlitsstofnun. Nú er það í raun og veru í gegnum ESA sem allar kæruleiðir eru hjá okkur, en engu að síður, ACER er eftirlitsstofnun með viðskiptum með raforku. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að litlir framleiðendur geti selt raforku inn á kerfið og hefur aldrei verið. Af hverju í ósköpunum ætti þessi stofnun, sem hlýtur að bera hag frjálsra viðskipta með raforku fyrir brjósti, að fara að hlutast til um gerð eða fjölda smávirkjana á Íslandi? Það er bara langt því frá.

Varðandi eftirlit með raforku er málið nákvæmlega það sama. Eftirlitið hér snýst ekki um neitt af þessu sem við vorum að ræða um áðan, þ.e. smávirkjanir eða annað slíkt, heldur um að það sé liðug sala og liðug samkeppni í landinu. Ef Norðmenn hafa fundið út með sérstakri greiningu að eftirlitinu hefur verið ábótavant þá tel ég það allt í lagi að íslensk stjórnvöld fari eftir því. Ef það þarf að hafa (Forseti hringir.) sjálfstæða stofnun sem er ekki í tengslum við það sem er hlutverk Orkustofnunar, sem við vitum hvert er (Forseti hringir.) og er miklu víðtækara en eftirlit, þá er það ágætt.